Sunday, August 31, 2008

Vinnusaga

Því miður gleymdi ég tilfinningaregnhlífinni minni heima í dag og því fóru allar skammirnar frá leiðinlegu kellingunni sem skammaði mig fyrir að selja litla stráknum sínum vatnsglas beint á sálina mína.

Sonur hennar kom í dag, þegar ég var að vinna í Smáralindinni og bað um vatnsglas. Mér er sagt að rukka fyrir glasið 20 krónur vegna þess að 1. það tekur tíma og fyrirhöfn að láta kalda vatnið renna, sækja glas og setja í það klaka, 2. Ég fæ ekki borgað frá Smáralindinni fyrir að gegna hlutverki vatnstanks fyrir gesti og gangandi, 3. Hann var ekki að kaupa neitt annað og loks 4. Hann bað mig ekki kurteisislega. Hann sagði ókei, fór til mömmu sinnar, sótti 20 krónur, kom aftur og keypti vatn. 20 mínútum seinna kom mamma hans og spurði mig á mjög reiðilegan máta hvort ég rukkaði virkilega 20 krónur fyrir vatnsglas og ég sagði já. Ég sagði að glasið sjálft kostaði pening og þjónusta mín kostaði líka pening. Hún sagðist sjálf vinna á fimm stjörnu hóteli(eins og það væri eitthvað betra en að vinna á Kaffitári...) og ef einhver kæmi til hennar að biðja um vatn myndi hún svo sannarlega veita þeim það. Ég hugsaði bara:"hversu oft kemur fólk inn á fimm stjörnu hótel að biðja um ókeypis vatnsglas? Ég myndi aldrei gera slíkt-Svo er Kaffitár úti á miðju gólfi og fólk gengur framhjá allan daginn að biðja um vatn og upplýsingar um hvar þessi eða hin búð er, ég er meira að segja spurð um strætóferðir..." en sagði ekkert. Svo gekk hún í burtu öskureið, og ég sný mér að gömlum vinnufélaga sem stóð þarna bíðandi eftir afgreiðslu og ég sagði eitthvað svona:"úff og Fruss, svona rétt til þess að losa um stressið og reiðina sem hafði byggst upp innan í mér", og hann var sammála mér um leiðindi konunnar. Litli strákurinn hlýtur að hafa séð mig og sagt mömmu sinni, vegna þess að hún kom askvaðandi aftur til mín og sagðist viljá fá eitthvað kvörtunareyðublað til þess að geta kvartað undan mér. Ég sagðist ekki vera með neitt slíkt en hún gæti annaðhvort sent e-mail á Mörtu yfirmann, að ég héti Jóhanna eða kannski tékkað hvort þjónustuborðið væri með kvörtunareyðublöð. Hún trúði mér greinilega ekki og strunsaði í burtu. Ég reyndi mitt besta í að halda ró minni og var eins kurteis og ég mögulega gat höndlað. Lít ég virkilega út eins og boxpúði???

Saturday, August 30, 2008

Shmee

Ég er búin að fá útborgað og því þarf ég ekki að sníkja matarpening af mömmu og Pabba lengur. Heldur þarf ég ekki lengur að gráta inni í sjálfri mér í hvert sinn er ég nota kreditkortið.
Það átti að halda í nýnemaferð til Viðeyjar í gær með skólanum og hélst áætlunin furðu lengi, þar til Ferjan aflýsti sökum veðurofsa. við förum líklega einhvern tíma seinna, annað hvort efnit tvær vikur eða eftir það. Hins vegar tókst flestum í bekknum að mæta í Bjórpartý á Prikinu í gær sem skipulagt var af eldri nemum Listaháskólans. Ég mætti náttúrulega úúbersvöl langfyrst klukkan hálf ellefu(en mæting var klukkan 10). Byrjaði á að halda að dyravörðurinn væri útlendingur og spurði hann á ensku hvort það væri eitthvað partý í gangi, og hann svaraði mér á íslensku, blekking mín tókst ekki... Svo fóru einhverjir þriðjubekkingar að mæta en ég sat ein úti í horni þar til Kolbrún vinnufélagi og þriðjubekkingur mætti, þá fékk ég að sitja með henni og vinum hennar:D Hún er góðhjörtuð. hehe:D Loksins mætti Helena færeyjingur(hún var líka í Myndó) og við spjölluðum. Þegar flestir voru farnir að hypja sig í burtu um eittleitið þá hringdi ég nokkrum sinnum í hana Sigrúnu sem var með mér í Myndó líka og er nú í Grafískri, en hún svaraði ekki, þannig að ég fór heim í fýlu, mig langaði svo að fara að dansa:( Og ofan á allt, hélt leigubílstjórinn að ég væri utan-af-landi-pakk í menningarreisu í Reykjavíkinni stóru,. Fjandans fífl... Heimferðin kostaði samt bara 1400 krónur :D
Úh, ég var að kaupa svarta blúndu sem ég ætla að sauma á háu svörtu krumpusígvélin mín:D Þau verða geðveikt flott:D
Svo var ógeðslega mikið að gera í smáralindinni í dag vegna þess að allir/flestir á íslandi fá útborgað á sama degi :(

Sunday, August 24, 2008

Það er margt í pípunum

Fyrsti skóladagurinn á morgun. Ég mæti kl. 09:00 og þarf einungis að taka einn strætó. Það mun breytast þar sem ég er yfirleitt í skólanum á öðrum stað, Laugarnesvegi.
Kórinn byrjar aftur 2. september.
Ég er síðan að vinna aðra hverja helgi í vetur á Kaffitárinu.
Og svo þarf ég að fara að drulla mér í það að taka fjandans bílprófið.
Ég er að gera tilraun til að safna hári. Mamma segir það verði fínt um jólin... Ætli ég verði ekki snoðuð þá haha;D
Ég hef tekið ákvörðun um það að vera rosalega dugleg í skólanum og gera allt eins vel og ég get, og ég ætla að vera dugleg í félagslífinu og hafa það skemmtilegt.
Ég ætla að hitta vini mína oftar.
Ég og mamma ætlum víst að fara að taka herbergið mitt í gegn...
Og margt fleira

Thursday, August 21, 2008

Strætóraunir

Ég sat í strætó á leiðinni heim úr vinnunni um daginn. Svo fer fólki sífjölgandi í strætó og svo verður að einhver maður sest hjá mér. Ég lykta að sjálfsögðu eins og fjögurra daga gamall kaffikorgur sem búið er að geyma í lokuðum plastpoka með átta daga gömlu óhreinataui. Ég lækka aðeins í ipodinum mínum, svo hann þurfi ekki að hlusta á tónlistina mína með mér og gef honum smá pláss með því að taka pokann minn og töskuna í fangið og þjappa mig svo upp að glugganum. Svo tveim stoppustöðvum seinna fer fólki fækkandi en maðurinn situr ennþá við hliðina á mér. Fjórum stoppustöðvum seinna er svo komið að ég, maðurinn og svona þrír aðrir sitjum í strætó, og fjandans gaurinn situr ennþá við hliðina á mér. Allar sex stoppustöðvarnar sem eftir voru þar til ég var komin að minni stoppustöð hringlaði sama setningin í höfði mínu:"Hérna afsakaðu herra, ég móðgast ekkert ef þú færir þig"...
Fólk! Það er ekki dónalegt að færa sig í laust sæti í burtu frá ókunnugu fólki sem þú hefur neyðst til að setjast við hliðina á!!!! Brostu bara og færðu þig, ég móðgast ekki, ég verð bara fegin...

Wednesday, August 20, 2008

London...






Amma

Bátar síðustu aldar dugga á hrukkum þínum í takt við hljóm gærdagsins.
Bátar með þungan farm sem áhöfnin staflar í háa stafla aftur og aftur.
Stafla sem hrynja í hverjum stormi.
Á meðan eru raulaðir löngu gleymdir söngvar
og löngu gleymd dansspor eru rifjuð upp.

Tuesday, August 19, 2008

Draumur næturinnar

Ég er í flýti, að hlaupa um, með Helgu systur minni. Hún réttir mér smurt flatbrauð með osti innpakkað í álpappír. Það átti að vera hádegismaturinn hennar, en nú átti það að gegna hlutverki afmælisgjafar handa Kolbrúnu, vinnfélaga okkar. Ég skyldi færa henni gjöfina sem fyrst, enda átti Kolbrún afmæli í gær og fyrr er víst betra en seinna. Helga og ég erum á leiðinni á Kaffitár í Bankastræti þar sem hún á að fara að vinna en á leiðinni þangað verð ég skyndilega glorsoltin, og treð í mig afmælisgjöfinni. Namm, flatkaka með osti, svo bragðgott. En þegar við erum komnar á neðsta hluta laugarvegsins finnst mér ég verða segja Helgu að ég hafi borðar afmælisgjöfina hennar Kolbrúnar, enda á ég enga peninga sjálf til að kaupa nýja afmælisgjöf. Helga verður æfareið þegar ég segi henni fréttirnar, og við skjótumst saman í Bónus, að kaupa meiri flatkökur og ost. Við erum að ganga um ranghala Bónuss, með afmælisgjöfina í höndunum þegar ég vakna.
Jáh, nú getur einhver snjall í fagi sínu, greint hvað er að gerast í undirmeðvitund minni...

Thursday, August 14, 2008

Kaffiblogg

Ég játa á mig þá synd að dæma fólk eftir því hvernig kaffi það drekkur...

Latte=mjóóólk er góóð... ég er ótrúlega venjuleg/ur
Tvöfaldur Latte=ég veit aldrei á hvaða kaffihúsi ég er
Mildur Latte=Mjóóólk er súpergóð með svona hint af kaffibragði....
RistrettóLatte=afhverju ertu að fá þér kaffi???
Soya/hrís/hafraLatte=ég er með ofnæmi fyrir mjólk
SoyaLatte án ofnæmis=ég er heilsufreak og fíla moldarbragð
Froðulatte=mmm ég elska að sleikja froðuna úr skeiðinni-nautnaseggur
Léttur latte=fíla mjólk, en geri mér grein fyrir því hver innihaldsefnin eru í Latte...
Da Vinchi=ég tími að kaupa sykurinn í kaffið mitt
Latte með sírópi=ég nenni ekki að pæla í því hvað hlutirnir heita(vegna þess að þetta er í rauninni Da Vinchi, auli)
Capucchino=nautnaseggur
Stór capucchino=mér er alveg sama um hefð(þ.e. capucchino er nákvæmlega 1/3 expressó, 1/3 heit mjólk og 1/3 mjólkurfroða) og ég er partur af fólkinu sem kom þessum asnalega drykk á kortið...
Stór og lítill macchiato=ég veit hvað ég vil, ég hef gengið í gegnum súrt og sætt með hinum drykkjunum og hef lært
Stór og Lítill ameríkanó=(hef ekki enn sjálf myndað mér skoðun á þessu fólki...)
Uppáhellt=sjitt, eh eh.... ég er hrædd/ur við þessa kaffimenningu, eða=ég er í flýtum, eða=ég hef prófað hitt en fíla það ekki
Expressó stór/lítill=ég er rosalega heimsborgaraleg/ur með kaffið mitt
Sexfaldur expressó til að taka með=Get ég fengið þetta beint í æð? En ef þú bleytir túrtappa upp úr hreinu koffíni? Ókei þá, sexfaldan expressó....
Ltill expressó eða lítill macchiato í götumáli=ætlarðu að sleikja kaffið úr málinu?
Ristrettó=tóku örugglega allir eftir því að ég pantaði Ristrettó?
Swiss Mokka=ég er drísill
ristrettó SvissMokka án rjóma=Hvað í andskotanum? Slepptu fokkíng kaffinu...
Karamellusveifla=ég er djöfullinn sjálfur
Mildur Da Vinchi með fimm skotum af vanillusírópi="I shall bring doom upon all mankind and make them suffer by walking on a giant cactus, eat a thousand tons of cotton, pour acid in their armpits, make them watch a hundred thousand flash lights, and so on..."

Tuesday, August 12, 2008

búss

Á sunnudaginn verða mamma og pabbi ekki heima-þau verða s.s. utan skutlfæris, og því neyðist ég víst til þess að ferðast með yndisfögrum strætónum upp í Smáralind. Ég var að tékka á bus.is hvernig ég kæmist þangað og það liggur þannig fyrir að ég þurfi einungis að taka tvo strætóa. Gallinn er hins vegar sá að þetta mun taka mig rúmlega klukkutíma, með 36 mínútna stoppi á Hlemmi... Þarf ég virkilega að vakna klukkan 9 til þess að eyða 36 mínútum af lífi mínu á Hlemmi??? Ætli ég stoppi ekki frekar á Lækjartorgi taki mér smá göngutúr upp Laugarveginn, ef það rignir ekki...

Sunday, August 10, 2008

Öðruvísistolt:D

Ég var s.s. að vinna í dag, þ.e. á Gaypridegöngudeginum. Frá 7:30-16:00. Í morgun var megarólegt, svona eins og lognið á undan storminum, þegar maður veit að eitthvað rosalegt á eftir að eiga sér stað... Þess vegna er einhver, kannski guð, að gefa okkur séns að búa okkur undir storminn... Þið vitið, gefa manni tíma til að fylla á götumálin, lokin, sykurinn, baka tonn af bakkelsum, fara niður í kjallara og læsa að sér og helst ekki koma út aftur... Það komu tveir frekar fullir náungar í morgun og báðu um "hinsegin kaffi", ég spurði hvernig kaffi það væri... Þeir héldu áfram að rausa um hinsegin kaffi og flissuðu svo eins og smástelpur. Ég lagði til að ég skyldi búa til eitthvað handa þeim og rukka þá svo fyrir dýrasta drykkinn á seðlinum... Þeir pöntuðu sér þá tvo stóra expressó. Ófyndnu lúðar... Um ca. 2-3 fór að pakkast inn á staðinn og klukkan hálfþrjú vorum við 5 starfskraftar öll á tánum að halda hausnum uppi fyrir ofan yfirborðið í djúpu lauginni... Það var röð út á götu að kaupa expressogrunnaða drykki og eitthvað með og það leit út sem langflestir vildu fá eitthvað sem var með sírópi útí, þannig að ég, sem var í því að búa til expressóana þurfti að hætta mér yfir á yfirráðasæði risastóra geitungsins, sem sveimaði í kringum sírópin, í hvert sinn sem einhver vildi fá heslihnetu, karamellu, kókos, vanilllu... blabla Davinci. Röðin af póst-it miðunum(pantanir) ofan á LaMarzokkónum(expressóvélin) okkar var endalaus þrátt fyrir dugnað okkar sem baristur. Einhvernveginn held ég að Playlistinn á Ipodinum mínum sem innihélt lög eins og "Vögguljóð" sungið af Ragnheiði Gröndal, My baby-Nina Simone, Lady D'Arbanville-Cat Stevens og fleiri lög í slíkum dúr, hafi ekki alveg náð að grípa logandi stemninguna sem þarna kraumaði í andrúmsloftinu. Loksins keyrðu lesbíurnar og hommarnir framhjá í litríkum, fagurskreyttum freygátum ásamt æpandi skrílnum og dúndrandi tónlistinni. Já þetta er alltaf jafngaman:D Ekki endilega út af því að þetta er GayPrideganga, heldur út af því að þarna er kominn saman stór hópur sem er eins og hann er, og allir sem eru þarna með þeim styðja þennan hóp í því sem þau gera og allir eru svo glaðir. Þegar allt þetta fólk fór framhjá fannst mér eins og þarna úti væri eitt risastórt KNÚS á gangi niður laugarveginn... Til hamingju Haffi og Helga, og allir hinir sem ég þekki og þekki ekki, og til hamingju allir hinir:D Knúúús;D
En vá, á næsta ári reyni ég að komast hjá því að vera að vinna á GayPride. Hjartað mitt höndlar það ekki oftar en mest annaðhvert ár... Ég ætla að Labba með þvögunni, eða standa inni á Kaffitári að horfa á hana fara framhjá, vinna knúsið og segja svo bless bless við aumingja fólkið sem er að vinna...
Kannski ætti þetta bara að heita hinsegin ganga og allir sem væru öðruvísi en normið(þ.e. allir nema einhver einn sem miðað er við) mættu vera með... Líka þeir sem svæfu reglulega með bangsann sinn, þeir sem læsu moggann afturábak, þeir örvhentu, rauðhærðu, þeir sem fíla ekki gæludýr, þeir sem sem segðu "Free" en ekki "Three" coffee(lenti í einum soleiðis í dag...) og allir hinir sem vilja eða vilja ekki skera sig úr fjöldanum:D

Thursday, August 07, 2008

Karamellukúkur

Kremfyllingin er svört, eins og ónýt olía á gamalli mözdu.
Kexið er seigt og blautt eins og fjögurra daga gömul mjólkurtuska ofan í eldhúsvaskinum.
Súkkulaðið utaná bragðast eins og græni bletturinn í ristabrauðinu.

Þú ert ógeðslega sætur.
Þú ert viðbjóðslega væminn.
Þú ert hryllilega mikið krútt.

Litli sæti einhyrningurinn minn.
Fallegi mjúki kærleiksbjörninn minn.

Þessi ótrúlega glitrandi kristalsaugu.

Djöfull ferðu í taugarnar á mér.

Monday, August 04, 2008

Ferðasagan um London. 2008

28. júlí mánudagur. Ferðadagur
Við flugum eldsnemma um morguninn til Lundúna, eftir hálfsvefnlausa nótt. Herra og Frú Sólskin og Steikjandi hiti tóku á móti okkur fyrir utan flugvöllinn á meðan beðið var eftir rútunni sem átti að ferja okkur frá Stansted til Victoria station, og því misstum við fáein kíló samtals í formi svita. Klukkan hefur verið um tvö, fyrsta daginn, þegar við loksins gátum farið að gangaa almennilega um Lundúnaborg og sáum við þá m.a. Buckingham Palace og Hyde Park. Í garðinum skemmti Eva sér við þá iðju að ganga upprétt í baki á móti litlum karlmönnum, oftast Indverskum í útliti, til að sýna okkur hve há hún væri miðað við þá. Metið var víst 7 í röð... Í þessum langa göngutúr þennan daginn náðum við góðum árangri í að týnast og missa áttina en það gerð það bara að verkum að við kynntum s borginni enn nánar. Kvöldmaturinn var etinn á Portúgölskum stað sem hét Nando's, hvar við fengum gómsætan kjúkling í brauði.
29. júlí þriðjudagur. Verslunardagurinn mikli
Á Oxford Street eyddum við fjölmörgum pundum á hæsta genginu í allri ferðinni, 165kr. Jolly time baby:D Við kynntumst mannlífi þessarar stóru heimsborgar í fjölmörgum verslunum. Við rannsökuðum andrúmsloftið og tókum púlsinn á fjölda stöðum s.s. Debenhams, zöru, Accessorize og H&M, og einnig kynntumst við vel mannflórunni í neðarjarðalestakerfum borgarinnar. Hinsta máltíð þessa dags var staðsett á dýrindis ítölskum veitingastað þar sem bornar voru á borð fyrir okkur gómsætar pizzur og pastaréttur.
30. júlí miðvikudagur. Hrelliskellir
Við ákváðum að morgunverður í boði hótelsins væri ekki þess virði að vakna fyrir þennan morguninn og snoozuðum því í smá stund. Því neyddumst við til morgunmatarinnkaupa í Sainsbury's matvörubúðinni rétt hjá. Við leituðum lengi að almenningsgarði eða einhverjum grasbletti til þess að setjast niður í sólinni meðan við myndum borða verðinn, en enginn slíkur fannst í tækatíð áður en hungrið bugaði okkur og því fengu matarsletturnar frá hungruðum stúlkunum að falla á innanstokksmuni hótelherbergisins. Við notuðum Ostrukortið okkar, sem við höfðum fjárfest í daginn áður, til þess að ferðast að St. Paul dómkirkjunni, sem er ákaflegafögur (miðaldakirkja) í endurreisarstíl. Þar gengum við uoo á hæstu kæðina í kúplinum, eða um 528 tröppur. Útsýnið var stórkostlegt og kálfarnir titruðu af erfiði þegar niður var komið. Marylin Monroe andsetti mig á leiðinni heim einhverjum indverja til mikillar kæti, þ.e. vindurinn feykti upp nýja köflótta kjólnum mínum að mér óviðbúinni... Við flýttum okkur heim svo við gætum haft nægar níma í að gera okkur áhorfanlegar fyrir Lion King söngleikinn. Það voru nú ófáir sem gáfu okkur hýrt auga þegar við komum út af hótelinu enda ekki ólaglegar stúlkur þar á ferð. Þrátt fyrir lestartafir og óskemmtilegheit komumst við í Lyceum theatre í tæka tíð og áttum saman ógleymanlega kvöldstund í faðmi leikhússins og leikara í fögrum búningum. Það var ekki laust við að stúlkurnar klökknuðu við að sjá fyrsta atriðið, svo stórfenglegt var þetta. Persónur sýningarinnar sem stóðu uppúr voru Skari(J), Múfasa(H,E), Rafiki(J,H,E), Púmba(J,H) og Zazu(J). Eftir leikritið var haldið á Maccadónalds að fá sér franskar og Maccaflö. Á meðan við kjömsuðum á ísnum kom inn óeiðraseggur, líklegast dópisti í leit að stað til að
dópa sig, og gerðist hurðaskellir og stúlknahrellir.
31. júlí fimmtudagur. Ljósmyndatökur
Við snoozuðum aðeins og lengi aftur í dag og fengum okkur dýrindis-morgunmat inni á lestarstöðinni. Jóhanna(mangóbitarog smoothie ), Eva(safi, ávaxtabitar og jógúrt) og Harpa(bökuð heit kartafla með tikkamasala-kjúklingabitum). Dýragarður Lundúna var næst á dagskrá hvar við sáum mörg merkileg dýr næstu fjóra klst. Batterí og ljósmyndapláss kláraðist hjá okkur sökum ákaflega krúttlegs Mar(ðar)kattar í módelstuði. Því reyndum við eins og við gátum að rýma fyrir ljósmyndatökum á Madame Toussauds vaxmyndasafninu. Quiznoz varð fyrir valinu þetta kvöldið, þó gæðin hafi ekki verið þau sömu og heima:( Harpa vökvamerkti herbergið með munnvatni og spræti sökum kímni Evu.
1. ágúst föstudagur. 6,sex,6,sex,6,sex,6,sex,6,sex
við vöknuðum í tæka tíð fyrir morgunmatinn og héldum á Notting Hill markaðinn. Þar fjárfestum við í dýrindis glingri og töff skóm. Á lestarstöðinni á leiðinni á markaðinn gekk einhver svartklædd pönkstelpa upp að mér og spurði mig hvar ég hefði fengið þessar geðveikt flottu rauðu sokkabuxur sem ég klæddist. Ég héld að stíllinn minn væri "anything but punk" haha... Breska konungsveldið heldur líklegast að við stúlkurnar séum mjög uppteknar af kynlífi sökum óheppilegra líkinda á ákveðnni tölu á íslensku og orðsins "sex" á ensku. Eftir að hafa séð megnið af markaðnum fengum við okkur gómsæta bruscettu og hvítlauksbrauð.
2. ágúst laugardagur. Liðaskipti dagurinn
Við snoozuðum kröftuglega þennan morguninn og báðum meira að segja herbergisþernuna að koma seinna að þrífa. Við skiptum liði eftir að hafa fengið okkur morgunmat og kaffi með Heiðrúnu, frænku Evu, og Elínóru dóttur Heiðrúnar. Eva fór með áðurnefndum aðilum á sædýrasafnið á meða ég og Harpa héldum á Camden Market. Eva var búin að hlakka mikið til að fá að klappa skötunum en þegar hún kom á safnið komst hún að því að það var búið að banna það... Á markaðnum keyptum við Harpa ýmsa hluti, þó færri en daginn áður. Harpa fékk sér skó, bol og crepes og ég fékk mér það sama. Crepesið átum við samanþjappaðar undir einni regnhlíf sökum skyndilegrar hellidemburigningar. Það hafði verið rigningarlegt um morguninn, en ég gleymdi regnhlífinni... Eftir markaðinn hittum við Stelpurnar hjá London eye. Það tók smá á taugarnar að komast þangað vegna þess að ið týndumst smá sökum hugmyndaleysis borgarstofnenda á götuheitum. en allt fór vel að lokum og við fengum okkur allar ítalskan kúluís. Á leiðinni heim hafði ég orð á því við Heiðrúnu hvað fólkið hér væri lágvaxið og tilvísaði í rannsóknir Evu fyrr í ferðinni. Þá sagði Eva; "já, ég tók sjö indverja í röð!!!". Um kvöldið brögðuðum við á Asískum mat, mjög líklega eldaðan af Breskum kokki með afar viðkvæmt og næmt bragðskyn, því við Harpa fundum ekkert bragð af matnum. Maccadóni framreiddi svo eftirréttinn þetta kvöldið. Eva segir að Davie Hasselhoff tökki geðveikt vel inn...
3. ágúst sunnudagur. Heimferð
við vöknuðum í morgunmatinn og sögðum bless við herbergið og karlþernuma kl. 10 um morguninn með 10 pundum. við skildum svo draslið okkar eftir á frímerkisgólfplássinu hennar Heiðrúnarog héldum á Modern Tate. Við tókum strætó til þess að sjá borgina í hinsta sinn:D Safnið var smá vonbrigði og þótti okkur sem við hefðum misst af partinum sem innihélt öll flottu listaverkin:( Við drekktum sorgum okkar í ís og pulsu. Svo keyptum við skilnaðargjöf og þakkargjöf handa Heiðrúnu, blóm og kaffi:D Á Starbucks gerði Jóhanna sig að smá nördafífli fyrior framan afgreiðslustúlkuna sökum ofvitneskju um kaffimölun. Heim hjá Heiðrúnu fengum við hádegismat og pressukönnukaffi:D Þar gat Jóhanna loksins deilt vitneskju sinni um kaffi með áhugasömum kaffiunnanda;D Svo var hlaupið á strætóstöðina með allar töskurnar og dröslast upp í vagninn með öll þyngslin, og nagginn:DStrætókerfið varð ofar á vallistanum heldur en neðanjarðalestarnar sökum viðgerða þar... Þar sem við vorum með forbókað sæti í flugvélinni fengum við "fasttrack" límmiða á flugmiðann okkar og þurftum við því ekki að bíða í stóru biðröðinni við leitarhliðið, heldur komumst við mikið fyrr inn í flugstöðina. Því fengum við lengri tíma í að eyða aukaklinkinu okkar á tollfrjálsa svæðinu áður en heim var haldið:D