Wednesday, August 08, 2012

Á stórum flutningabíl á áttatíu km/klst hraða hangir ljóstýra í stuttri snúru, sveiflast, lokkar mig inn á milli mjúkra gúmmídekkjanna.

berleggjaðar trjáhríslur stafa út í loftið 3-4 metra fyrir ofan mig

rauður fáni gulur fáni
hanga nær litlausir í logninu

himininn er eins og óskrifað nótnablað
Hann hótaði að rigna en ég friðmæltist við hann með þvi að skyrpa á jörðina- í staðinn bleytti hann bara lærin mín og lét þar við standa.
Á milli screengluggatjaldanna tveggja er bil. Í gegnum það skín sólin á andlit mitt eldsnemma á morgnana og í gegnum þetta bil horfi ég á útskúfaðar aspirnar í næsta garði sveigjast í vindinum fyrir framan hvítgráan bakgrunn sem himinninn dregur fyrir sig að kvöldi. Og sé stjörnubjart lít ég kannski þrjár bjartar stjörnur-ef ég er heppin; borgarmengunin þú veist. Stöku andlit sem stingur höfðinu út um opinn gluggann á húsinu með garðinum og kallar á Jóa-sem mér er sagt að sé köttur, en ég hef aldrei séð hann, kannski hann komi inn um gluggann á neðri hæð hússins. Mjór, lóðréttur og langur rammi minn sýnir mér þó yfirleitt allt sem ég þarf. Fyrr eða síðar mun allt fara framhjá rammanum mínum-fyrr eða síðar mun hann sýna mér allt.
Efi sem plagar
óskilgreind sjálfsvorkunn-nístandi
krafsar laust í yfirborðið
aftur og aftur, hættir ekki
krafsar þar til yfirborðið er ekki lengur til staðar
og komið er í undirlagið
klórar-það klægjar svo
kreistir-það glansar svo
sveltir-það fitnar svo
gleymir-það minnist svo
lítur undan-það starir svo

Væri leiðin greið

Raskar ójafnvæginu, leyfir hlutunum að flæða áfran án nokkurrar óstöðugrar mótstöðu, velta-ýta undan sér beinagrindunum-sem voru geymdar og gleymdar í skápnum, þessum með ólæstu en mjög svo stífu hurðunum. Þannig að hver sem væri þar inni héldi að skápurinn væri læstur og reyndi ekki að komast út-lemdi bara í veggina í kringum sig og vissi ekki að með því að halda bara kúlinu og ýta þéttingsfast á hurðina væri leiðin greið.

pæli um texta-sjónlist

Að setja myndir í orð og að setja orð í myndir, er virkilega svo mikill munur á þessu tvennu? Hægt er að þýða myndlistarverk yfir í orð- lýsa því/útskýra það/gefa því titil...(er titill á myndlistarverki kannski ákveðin þýðing?), og er þá á sama hátt hægt að þýða texta yfir í myndlistarverk?