Wednesday, May 08, 2013

Gremlins, Dýr í máli og myndum



Gæludýr drauma þinna

Eitt ástsælasta gæludýr níunda áratugarins kynni vel að vera hinn ofurkrúttlegi Gizmo. Gizmo er af dýrategundinni mogwai sem virðist vera, eins og hún birtist í fyrri hluta kvikmyndarinnar, Gremlins (1984)[1], hið fullkomna gæludýr. Mogwai eru um það bil 30-40 cm loðin, brún og hvít-flekkótt smádýr, með löng útstandandi eyru, stór dreymandi augu, samankreppt nef, stóran munn og stutta útlimi. Mogwai stendur í afturlappirnar en er dálítið valtur, og er þar af leiðandi ákaflega krúttlegur og bjargarlaus. Gizmo er hálfgerð hermikráka, hann lærir hratt af eigendum sínum, þar á meðal að söngla, spila á hljómborð og að horfa á sjónvarp. Hann getur einnig lært að segja fáein orð með sinni ofursætu röddu, og meðal þeirra orða sem hann kann eru orðin „svalt“ (e. neat), „omm-nomm“ (e. yum-yum), og „ljós bjart“ (e. light bright), og kitlar þannig síendurtekið krútttaugar kvikmyndaáhorfandans, sem minnist allra þeirra kátbroslegu ungabarna er hann hefur umgengist. Það er einungis einn galli á mogwai, eða réttara sagt þrír. Dýrinu fylgja þrjár reglur sem erfitt getur verið að fylgja. Fyrsta reglan er að ekki er æskilegt að bleyta dýrið, því þá fjölgar það sér. Önnur reglan mælir gegn því að baða dýrið björtu ljósi því það er viðkvæmt fyrir því, sérstaklega sólarljósi, sem reynist dýrinu banvænt. Sú þriðja er sérstaklega mikilvæg. Hún er sú að ekki er leyfilegt að fóðra dýrið eftir miðnætti, enda ummyndast það þá í óárennilegt skrímsli, þ.e. gremlins, sem líkist fremur einhverri ljótri eðlutegund heldur en hinni knúsulegu loðnu veru sem það var áður.
            Engar áhyggjur, því mogwai, eða gremlins eru að sjálfsögðu ekki til í raunveruleikanum. Þetta eru skáldaðar verur sem handritahöfundurinn Chris Columbus bjó til út frá þjóðsögum frá seinni heimsstyrjöldinni um litlar verur, sem kallaðar voru gremlins, og höfðu sérstakt lag á því að gera skemmdarverk á vélbúnaði herflugvéla. Þessi uppruni birtist í fyrri hluta kvikmyndarinnar þar sem hinn ólánsami, en þó viðkunnalegi, Murray Futterman, nefnir þá í sambandi við erlendan vélvarning. Og aftur í seinni helmingnum þegar Billy Peltzer segir við Kate Beringer: „Þetta eru gremlins, alveg eins og herra Futterman sagði!“[2].
Áhugavert er að skoða hvernig viðhorf persóna kvikmyndarinnar breytast gagnvart mogwai eftir að þeir hafa gengið í gegnum púpustigið og orðnir að gremlin. Vissulega eru gremlin ekki eins krúttlegir og mogwai; þeir eru illskeyttari, hættulegri og óneitanlega erfiðari í umgengni. Þeir virðast minnast illrar meðferðar sem þeir eru beittir á mogwaistiginu, eins og sést hjá einum sem náttúruvísindakennarinn Roy Hanson gerði vísindalegar tilraunir á, en hann er jafnframt sá fyrsti sem liggur í valnum í útistöðunum við þessi illskeyttu smádýr. Augljóst er hvaða augum framleiðendur kvikmyndarinnar horfa þá sem koma illa fram við dýr. Mrs. Deagle, sem kemur snemma fram í myndinni, er til að mynda afar illa við hund Billys, Barney, og hótar að fara illa með hundinn ef Billy losar sig ekki við hann. Hún, líkt og Roy áður, hlýtur makleg málagjöld þegar nokkrir gremlins breyta stillingum á stólalyftu hennar, sem verður til þess að hún skýst út um gluggann á efstu hæð húss síns, á snævi þakta stéttina fyrir neðan, og lætur lífið samstundis.
En flóknara er ímynda sér í gegnum hvaða gleraugu framleiðendur sjá þá sem losa smábæinn við hina ógeðfelldu pest, sem gremlings bersýnilega eru. Móðir Billys, Lynn Peltzer, er sú fyrsta sem berst hetjulega gegn ótemjunni og nær árangri. Hún nær að deyða þrjá gremlins, á hrottalegan hátt, með hjálp heimilistækja sem vanalega eru notuð við matreiðslu á þegar slátruðu dýrum. Ákveðin mótsögn virðist birtast hér í viðhorfi til meðferðar á dýrum, eftir því af hvaða tegund þau eru og hversu góð eða slæm þau teljast. Ef þau eru meðfærileg og góð gæludýr, líkt og hundar eða mogwai, þá er allt að því glæpur að fara illa með þau. En gerist þau hættuleg gagnvart mannfólki og öðrum dýrum, líkt og raunin er með gremlin, virðast þau réttdræp. „Peter Singer hvatti til árið 1991, að hugmyndir nytjastefnumanna (e. utilitarians) um að skilgreina þá getu dýra til þess að finna fyrir sársauka sem næga ástæðu til íhugunar á hagsmunum þeirra, væru notaðar.“[3] Samkvæmt þessu ættu gremlins, þrátt fyrir óhentugleika í umgengni, að hljóta ekki ósvipaðra réttindi og til dæmis Barney eða Gizmo.

Fræðilega séð

Löngum hefur manninn langað til þess að skoða heiminn í gegnum skynjunarveröld annarrar dýrategundar, en það getur reynst erfitt þar sem dýrin eru misjafnlega ólík okkur, og við vitum að þau skynja heiminn á mjög ólíkan hátt miðað við okkur sjálf. En með aukinni þekkingu á dýrunum og athæfum þeirra má komast nær upplifun þeirra á heiminum. Þessu ferli hefur verið líkt við tvær sápukúlur, þar sem önnur er svið manna og hin er svið tiltekinnar dýrategundar. Þessar kúlur geta skarast og myndað sameiginlegan þekkingar- og skilningsgrundvöll.

„... við byrjum á því að blása ímyndaða sápukúlu í kringum hverja veru. Þessi sápukúla er þá fulltrúi heimsmyndar verunnar, full af skynjunum sem aðeins hún þekkir. Þegar við svo sjálf stígum inn í eina af þessum sápukúlum, skiptir hið kunnuglega engi um svip. Litríkir eiginleikar þess hverfa, aðrir eiga ekki lengur saman og nýjar tengingar myndast. Nýr heimur verður til. Í gegnum kúluna sjáum við heim ánamaðksins, fiðrildisins eða hagamúsarinnar; heiminn eins og hann birtist dýrunum sjálfum, ekki eins og hann birtist okkur. Þetta má vel kalla fyrirbæra heim eða sjálfs-heim dýrsins.“[4]

Gallinn er sá að sápukúlurnar geta aldrei verið fullkomlega samsvarandi þar sem svið dýrsins er ávallt að hluta til undanskilið frá hinum sameiginlega grundvelli, sem verður til þess að, fræðilega séð, næst aldrei fullkominn skilningur. Að auki má benda á að hugmyndafræðilegt viðhorf manna gagnvart dýrum almennt, í hinum vestræna heimi a.m.k., gerir það erfiðara að nálgast dýrin á jafnréttisgrundvelli.[5] Því verður svæði dýranna ósjálfrátt einskonar „villt svæði“ og jafnframt einhvers konar jaðar, sem skilgreindur er út frá miðjunni, það er hinni mannlegu miðju. Út á þetta gengur meðal annars mannmiðjukenningin (e. anthropomorphism), og uppræting framangreinds viðhorfs.
Í bók sinni Picturing Animals talar Steve Baker um að í menningunni séu dýr ávallt einhvers konar blanda af raunverulegu dýri og menningarlegri útgáfu af því. Þ.e. við sjáum aldrei dýrið sjálft þar sem það er alltaf eftirmynd dýrs, ávallt ákvarðað út frá því sem við teljum okkur vita um dýrið. Hann segir ennfremur að erfitt sé fyrir okkur, en líklega ekki ómögulegt, að flysja menningarlegar tengingar utanaf dýrinu, þ.e. eftirmyndirnar sem stýra hugsun okkar um þau.[6] Helsti vandinn í birtingarmynd mogwai og gremlins er því sá að þetta eru skáldaðar dýrategundir. Hvorug tegundin hefur yfir að ráða ósamræmanlegu sviði sem manninum getur reynst erfitt að ganga inná, hann einfaldlega getur það ekki; og hvorugt dýrið hefur raunverulega birtingarmynd í veruleikanum. Allt svæði þeirra er ímyndað af mönnum, og svæðið, utan hins sameiginlega í sápukúlukenningu Jakobs von Uexküll, er hvergi til. Því kann það að virðast undarlegt að slíkt dæmi sé tekið fyrir í þessu verkefni, þar sem ekkert af því sem gerðist í kvikmyndinni gerðist í raunveruleikanum, og því ómögulegt að draga nokkurn til ábyrgðar. En kvikmyndin sýnir samt sem áður einkar vel viðhorf[7] gegn dýrum almennt, og með því að láta alla þessa hræðilegu atburði gerast fyrir gremlins sem aldrei hafa verið til[8], þá virðist framleiðendum frjálst að fara með dýrin eins og þeim sýnist. Ólíkt raunverulegum dýrum sem notuð eru í kvikmyndir eða önnur listform, eru gremlins og mogwai ekki myndlíking fyrir raunverulega dýrategund. Þeir eru fremur eins og „allegóría“ fyrir almennt viðhorf fólks gagnvart gæludýrum. Og þar sem dýrin eru algerlega búin til af mönnum þá virðast áhorfendur geta fríað sig ábyrgð á því að hlægja að því þegar illa er farið með gremlins í kvikmyndinni. Ennfremur við það að ummyndast í einhvers konar eðlutegund verða dýrin jafnframt enn fjarskyldari mönnum en mogwai og því virðist ekki eins rangt að örbylgja þá til dauða, þeir eru jú með grænt blóð! Það virðist því sem Gizmo og Stripe[9] séu fulltrúar tveggja ósamræmanlegra viðhorfa gagnvart dýrum sem viðgangast á sama tíma.



[1] Joe Dante, Gremlins, (Steven Spielberg, 1984)
[2] „They‘re Gremlins Kate, just like mr. Futterman said!“ (íslensk þýð. mín)
[3] „The utilitarian version of animal welfare advocated by Peter Singer (1991) designates sentience or the ability to feel pain as sufficient for having interests that must be considered.“ (Sandra Mitchell, Thinking with Animals, New perspectives on Anthropomorphism, ritstj. Lorraine Daston og Gregg Mitman, (New York: Columbia University Press, 2001), bls 101.)
[4] „... we must first blow, in fancy, a soap bubble around each creature to represent its own world, filled with the perceptions which it alone knows. When we ourselves then step into one of these soap bubbles, the familiar meadow is transformed. Many of its colorful features disappear, others no longer belong together but appear in new relationships. A new world comes into being. Through the bubble we see the world of the burrowing worm, of the butterfly, or of the field mouse; the world as it apprears to the animals themselves, not as it appears to us. This we may call phenomenal world or the self-world of the animal.“, Jakob von Uexküll, „A Stroll Through the Worlds if Animals and Men“, Instinctive behavior, (New York: International Universities Press, Inc), bls. 5.
[5] Lori Gruen, Ethics and Animals, an Introduction, (Camebridge: Camebridge University Press, 2011) bls. 22.
[6] Steve Baker, Picturing Animals, Animals, identity and representation, (USA: University of Illanois Press, 2001) bls. 6-9.
[7] að minnsta kosti þeirra sem að framleiðslu myndarinnar komu.
[8] og ennfremur er fyrirmynd þeirra einkum tengd vélbúnaði – sem virkar afar ólífrænt.
[9] Stripe er forrystusauður hinna nýútunguðu mogwai. Hann verður valdur að því að þeir borða eftir miðnætti og breytast í gremlins.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home