Thursday, October 07, 2010

1012 dropar

Glærir veggir veita ekki skjól fyrir aðkasti heimsins. Splúndrast í þúsund og tólf (í hundraðasta veldi) mola ósýnilegir en stórhættulegir. Við hvern andardrátt læðast með gleragnir, dulbúnar sem loftagnir, glærar, í gasformi undir 1000 tonna þrýstingi. Ferðast um líkamann og setjast að á innri veggjum hjartans, bindast varanlegum sameindaböndum og þekja hjartahvelin. Ég verð að fá mér sterkbyggðari veggi næst til að verja glerhjartað mitt betur.
7. október ´10
Ég reyndi mitt besta til þess að skrifa þér bréf, segja þér hvað mér fyndist, hvernig mér liði, en pappírinn var gegnsósa af saltvatnsupplausninni og blekið barst um æðar pappírsins. Það var eins og pennin styngi blaðið og því blæddi svörtu galli. Engin orð voru skiljanleg, en þrátt fyrir það sendi ég bréfið. Það kæmi hvort eð er líðan minni betur til skila heldur en orðin hefðu nokkurntíma.
7. október ´10

kistill

Mig langaði að plata þig. Plata þig til þess að lesa ljóðin mín. Þú virtist engan áhuga hafa á þeim þegar ég sagði þér frá því sem ég hafði verið að bralla í textagerð. Þú spurðir mig hvenær ég ætlaði að mála handa þér mynd, ég mætti ráða hvað væri á henni. Ég notaði allskonar trikk til að vekja áhuga þinn, bjó til vídeo og setti ljóðin í undirtextann, en þú sofnaðir í miðju ljóði. Ég málaði texta á vegginn í stofunni þinni en þú settir yfir það veggfóður án þess að lesa það sem ég hafði að segja. Ég beitti öfugri sálfræði á þig, bannaði þér að opna dagbókina mína og þú lést hana í friði. Ég meira að segja reyndi að höfða til fornleifafræðingsins í þér, skrifaði textann á að því er virtist aldagamalt blað, setti það í fornan kistil og læsti. Þá setti ég lykilinn á kippuna þína, þessa með stjörnumerkinu þínu á. Svo kom ég til þín með kistilinn og sagðist hafa fundið hann uppi á háalofti. Ég spurði þig hvort þú vissir hvar lykillinn væri og þú sagðist hafa séð óþekktan lykil á lyklakippunni þinni. Við prófuðum dularfulla lykilinn og hann opnaði kistilinn án vandræða. Þú skimaðir yfir textann sem stóð á blaðinu og dæmdir hann á augabragði, ,,æj þetta er bara eitthvað úr einhverri dagbók" og lagðir hann aftur í kistilinn. ,,Þetta er hins vegar fallegur kistill."
7. október ´10

Wednesday, October 06, 2010

Frægur íkorni

Ég kroppa í sárið, smá rauður blóðdropi birtist, glansar. Ég kreisti til að losa um hlekki húðarinnar, losna við útlitstengda fordóma. Set þá í tilraunaglas og drekki þeim í lífvísindalegri tilfinningaþvælu keyptri á afslætti í Krónunni. Hristi vel og set í skilvindu. Skilja skal hismið frá kjarnanum, kjarnann frá erfðaefninu... Ég reima skóna og geng sjálfsörugg út um dyrnar með smá ör á annarri öxlinni. Minniháttar sársauki sem hjálpar mér að vinna úr illskunni í heiminum, lifa með henni, meðfram henni, svo ég nagi ekki af mér útlimi sökum samviskubits. Klemmd gildran sem stöðugt, án afláts, sendir hættuboð í almenningssamgöngurnar og umferðarteppan, sem eins og sykrað tyggigúmmí, teygjanlegt með mjúkum kjarna, kemur í veg fyrir að fréttaskilaboðin berist alla leið heldur festast í klístraðri æðateppunni. Loppan á fimum íkornanum, klemmd í gildrunni og skilaboðin á röngu tungumáli, óþýdd og gagnslaus, ónothæf.
2. október ´10

Monday, October 04, 2010

Ráðleggingar lífsins... ;D

Bestu og verstu ákvarðanir lífsins eru teknar í skyndi. Þær ákvarðanir sem teknar eru á löngum tíma, með mikilli íhugun eru yfirleitt meðalgóðar. Lífið þarf að vera sambland af útpældum ákvörðunum og skyndiákvörðunum til þess að vera í jafnvægi. Margir una sér þó ekki í jafnvæginu og kjósa fremur að lifa annarsstaðar á ásnum. En ef þú vilt breyta lífi þínu, reyndu að skilgreina það hvernig ákvarðanir þú tekur yfirleitt og prófaðu hina gerðina...
Strætóferð: 4. október ´10

Friday, October 01, 2010

Dagbók listamanns statement 1-2

Leiðin skiptir miklu máli, ekki endilega í endanlegu formi, heldur fyrir mig. Spuni er mikilvægur. Spuni út fra´e-u sem birtist mér í umhverfinu. Það að setja eitthvað saman sem annaðhvort passar saman eða ekki. Oft óreiðukenndar aðferðir vi ðað ná einhverju út úr sjálfri mér. Stundum sest ég niður með penna í hönd, með blað fyrir framan mig og skrifa orð. Spinn út frá því og úr því verður ljóð eða texti eða mynd. Jafnvel skúlptúr. Vinn ég á svipaðan hátt í aðra miðla t.d. leir, eða video. Horfi á það sem kemur út og yfirleitt reyni ég að vinna eitthvað smá út úr því, ekki of mikið, en nóg til þess að mér finnist það ná einhverju nýju eða fögru eða ljótu eða fyndnu. Stundum öllu í einu. Með uppsetningu finnst mér best að hugsa ekki of markvisst heldur setja hluti fram í e-u samhengi eða andstöðu frekar hratt, stundum hrátt. Vinna með hugmyndaleysi, ritstíflu, prófa mig áfram með efni, læra á þau, leyfa efninu að hafa áhrif á mig og hafa áhrif á efnið.
28. sept ´10
Að setja eitthvað fram og rökstyðja það. Setja svo fram eitthvað annað og grafa þá undan fyrri fullyrðingu. Vera í mótsögn og meðsögn vegna þess að allt sem þú segir og gerir hefur jákvæð eða neikvæð áhrif á það sem á undan er liðið eða það sem eftir kemur. Þú borðar t.d. jógúrt til að fá kalk, en jógúrtin er með kaffibragði(1% kaffi) sem þ.a.l. kemur í veg fyrir að sumt af kalkinu er ekki tekið upp í blóðinu og skolast út með þvagi eða hægðum. Allt virkar á svipaðan hátt og ómögulegt er að koma í veg fyrir að eitthvað standi eða falli með ásetningi. Í hvert sinn sem þú segir eitthvað þá er það á skjön við eitthvað sem þú hefur áður sagt eða haldið fram. Þó þýðir það ekki að önnur sögnin sé sannari, standi þér nær, í öðru en tíma, því oft er hægt að vera á mörgum skoðunum í einu. Að viðurkenna hræsni sína er merkilegri hlutur en að vera hræsnislaus. Því hræsnislausir eru annaðhvort einfeldningar eða meistarar í geislandi sjálfsblekkingu.
29. sept

Loð

Loðnir staðir, loðin tímabil.
Hér og þar og hvar
í umhverfinu
á líklamanum.

Ég gaf þingmönnum gjafabréf
í brasilískt vax
svo þeir þyrftu ekki
að vera ósnyrtilegir
til fara.

Átta ósýnilegar flugur

Átta hugmyndir í einu sem reyna að trana sér fram í brjálæði, reyna að vera fyrst, fremst, best. Gerir flottasta heljarstökkið og afturábak skrúfu, hnýta, hnjóta um hvern annan, bregða fæti fyrir sjálfan sig því þeir gleymdu að reima skóna í upphafi. "Reimaðu skóna þína" sagði mamma oft upp úr þurru, jafnvel þegar ég klæddist ekki einu sinni skóm, eða var í skóm með frönskum. Ég lærði það fljótt af eigin reynslu að æskilegt þætti að klæðast skóm útivið þegar ég steig á hunangsflugu í grasinu, berfætt í engum skóm né sokkum. Ég steig á líkama hennar, hún stakk mig í ilina. Samskipti okkar urðu ekki lengri. Ég geri ráð fyrir að hún hafi flogið ringluð í burtu og dáið á sér kærum stað. Kannski í faðmi túnfífils, eða á blaði holtasóleyjar, þó líkleegra hefði verið að hún hafi lent á köngullóarvef. Ég vona þó að hún hafi dáið áður en Lóa kom að snæðingi. Ekki vildi ég hafa neitt ómannúðlegt, ómannlegt á samviskunni... Því geng ég í skóm til að gera örlög þeirra flugna sem ég kann að hafa stigið á, eða mun í framtíðinni traðka á, ósýnileg.