Wednesday, October 06, 2010

Frægur íkorni

Ég kroppa í sárið, smá rauður blóðdropi birtist, glansar. Ég kreisti til að losa um hlekki húðarinnar, losna við útlitstengda fordóma. Set þá í tilraunaglas og drekki þeim í lífvísindalegri tilfinningaþvælu keyptri á afslætti í Krónunni. Hristi vel og set í skilvindu. Skilja skal hismið frá kjarnanum, kjarnann frá erfðaefninu... Ég reima skóna og geng sjálfsörugg út um dyrnar með smá ör á annarri öxlinni. Minniháttar sársauki sem hjálpar mér að vinna úr illskunni í heiminum, lifa með henni, meðfram henni, svo ég nagi ekki af mér útlimi sökum samviskubits. Klemmd gildran sem stöðugt, án afláts, sendir hættuboð í almenningssamgöngurnar og umferðarteppan, sem eins og sykrað tyggigúmmí, teygjanlegt með mjúkum kjarna, kemur í veg fyrir að fréttaskilaboðin berist alla leið heldur festast í klístraðri æðateppunni. Loppan á fimum íkornanum, klemmd í gildrunni og skilaboðin á röngu tungumáli, óþýdd og gagnslaus, ónothæf.
2. október ´10

0 Comments:

Post a Comment

<< Home