Átta ósýnilegar flugur
Átta hugmyndir í einu sem reyna að trana sér fram í brjálæði, reyna að vera fyrst, fremst, best. Gerir flottasta heljarstökkið og afturábak skrúfu, hnýta, hnjóta um hvern annan, bregða fæti fyrir sjálfan sig því þeir gleymdu að reima skóna í upphafi. "Reimaðu skóna þína" sagði mamma oft upp úr þurru, jafnvel þegar ég klæddist ekki einu sinni skóm, eða var í skóm með frönskum. Ég lærði það fljótt af eigin reynslu að æskilegt þætti að klæðast skóm útivið þegar ég steig á hunangsflugu í grasinu, berfætt í engum skóm né sokkum. Ég steig á líkama hennar, hún stakk mig í ilina. Samskipti okkar urðu ekki lengri. Ég geri ráð fyrir að hún hafi flogið ringluð í burtu og dáið á sér kærum stað. Kannski í faðmi túnfífils, eða á blaði holtasóleyjar, þó líkleegra hefði verið að hún hafi lent á köngullóarvef. Ég vona þó að hún hafi dáið áður en Lóa kom að snæðingi. Ekki vildi ég hafa neitt ómannúðlegt, ómannlegt á samviskunni... Því geng ég í skóm til að gera örlög þeirra flugna sem ég kann að hafa stigið á, eða mun í framtíðinni traðka á, ósýnileg.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home