Thursday, October 07, 2010

kistill

Mig langaði að plata þig. Plata þig til þess að lesa ljóðin mín. Þú virtist engan áhuga hafa á þeim þegar ég sagði þér frá því sem ég hafði verið að bralla í textagerð. Þú spurðir mig hvenær ég ætlaði að mála handa þér mynd, ég mætti ráða hvað væri á henni. Ég notaði allskonar trikk til að vekja áhuga þinn, bjó til vídeo og setti ljóðin í undirtextann, en þú sofnaðir í miðju ljóði. Ég málaði texta á vegginn í stofunni þinni en þú settir yfir það veggfóður án þess að lesa það sem ég hafði að segja. Ég beitti öfugri sálfræði á þig, bannaði þér að opna dagbókina mína og þú lést hana í friði. Ég meira að segja reyndi að höfða til fornleifafræðingsins í þér, skrifaði textann á að því er virtist aldagamalt blað, setti það í fornan kistil og læsti. Þá setti ég lykilinn á kippuna þína, þessa með stjörnumerkinu þínu á. Svo kom ég til þín með kistilinn og sagðist hafa fundið hann uppi á háalofti. Ég spurði þig hvort þú vissir hvar lykillinn væri og þú sagðist hafa séð óþekktan lykil á lyklakippunni þinni. Við prófuðum dularfulla lykilinn og hann opnaði kistilinn án vandræða. Þú skimaðir yfir textann sem stóð á blaðinu og dæmdir hann á augabragði, ,,æj þetta er bara eitthvað úr einhverri dagbók" og lagðir hann aftur í kistilinn. ,,Þetta er hins vegar fallegur kistill."
7. október ´10

0 Comments:

Post a Comment

<< Home