Thursday, October 07, 2010

1012 dropar

Glærir veggir veita ekki skjól fyrir aðkasti heimsins. Splúndrast í þúsund og tólf (í hundraðasta veldi) mola ósýnilegir en stórhættulegir. Við hvern andardrátt læðast með gleragnir, dulbúnar sem loftagnir, glærar, í gasformi undir 1000 tonna þrýstingi. Ferðast um líkamann og setjast að á innri veggjum hjartans, bindast varanlegum sameindaböndum og þekja hjartahvelin. Ég verð að fá mér sterkbyggðari veggi næst til að verja glerhjartað mitt betur.
7. október ´10
Ég reyndi mitt besta til þess að skrifa þér bréf, segja þér hvað mér fyndist, hvernig mér liði, en pappírinn var gegnsósa af saltvatnsupplausninni og blekið barst um æðar pappírsins. Það var eins og pennin styngi blaðið og því blæddi svörtu galli. Engin orð voru skiljanleg, en þrátt fyrir það sendi ég bréfið. Það kæmi hvort eð er líðan minni betur til skila heldur en orðin hefðu nokkurntíma.
7. október ´10

1 Comments:

Anonymous Eva segir:

ú, vá flott, sérstaklega það fyrra

12:01 PM  

Post a Comment

<< Home