Wednesday, May 08, 2013

Gremlins, Dýr í máli og myndum



Gæludýr drauma þinna

Eitt ástsælasta gæludýr níunda áratugarins kynni vel að vera hinn ofurkrúttlegi Gizmo. Gizmo er af dýrategundinni mogwai sem virðist vera, eins og hún birtist í fyrri hluta kvikmyndarinnar, Gremlins (1984)[1], hið fullkomna gæludýr. Mogwai eru um það bil 30-40 cm loðin, brún og hvít-flekkótt smádýr, með löng útstandandi eyru, stór dreymandi augu, samankreppt nef, stóran munn og stutta útlimi. Mogwai stendur í afturlappirnar en er dálítið valtur, og er þar af leiðandi ákaflega krúttlegur og bjargarlaus. Gizmo er hálfgerð hermikráka, hann lærir hratt af eigendum sínum, þar á meðal að söngla, spila á hljómborð og að horfa á sjónvarp. Hann getur einnig lært að segja fáein orð með sinni ofursætu röddu, og meðal þeirra orða sem hann kann eru orðin „svalt“ (e. neat), „omm-nomm“ (e. yum-yum), og „ljós bjart“ (e. light bright), og kitlar þannig síendurtekið krútttaugar kvikmyndaáhorfandans, sem minnist allra þeirra kátbroslegu ungabarna er hann hefur umgengist. Það er einungis einn galli á mogwai, eða réttara sagt þrír. Dýrinu fylgja þrjár reglur sem erfitt getur verið að fylgja. Fyrsta reglan er að ekki er æskilegt að bleyta dýrið, því þá fjölgar það sér. Önnur reglan mælir gegn því að baða dýrið björtu ljósi því það er viðkvæmt fyrir því, sérstaklega sólarljósi, sem reynist dýrinu banvænt. Sú þriðja er sérstaklega mikilvæg. Hún er sú að ekki er leyfilegt að fóðra dýrið eftir miðnætti, enda ummyndast það þá í óárennilegt skrímsli, þ.e. gremlins, sem líkist fremur einhverri ljótri eðlutegund heldur en hinni knúsulegu loðnu veru sem það var áður.
            Engar áhyggjur, því mogwai, eða gremlins eru að sjálfsögðu ekki til í raunveruleikanum. Þetta eru skáldaðar verur sem handritahöfundurinn Chris Columbus bjó til út frá þjóðsögum frá seinni heimsstyrjöldinni um litlar verur, sem kallaðar voru gremlins, og höfðu sérstakt lag á því að gera skemmdarverk á vélbúnaði herflugvéla. Þessi uppruni birtist í fyrri hluta kvikmyndarinnar þar sem hinn ólánsami, en þó viðkunnalegi, Murray Futterman, nefnir þá í sambandi við erlendan vélvarning. Og aftur í seinni helmingnum þegar Billy Peltzer segir við Kate Beringer: „Þetta eru gremlins, alveg eins og herra Futterman sagði!“[2].
Áhugavert er að skoða hvernig viðhorf persóna kvikmyndarinnar breytast gagnvart mogwai eftir að þeir hafa gengið í gegnum púpustigið og orðnir að gremlin. Vissulega eru gremlin ekki eins krúttlegir og mogwai; þeir eru illskeyttari, hættulegri og óneitanlega erfiðari í umgengni. Þeir virðast minnast illrar meðferðar sem þeir eru beittir á mogwaistiginu, eins og sést hjá einum sem náttúruvísindakennarinn Roy Hanson gerði vísindalegar tilraunir á, en hann er jafnframt sá fyrsti sem liggur í valnum í útistöðunum við þessi illskeyttu smádýr. Augljóst er hvaða augum framleiðendur kvikmyndarinnar horfa þá sem koma illa fram við dýr. Mrs. Deagle, sem kemur snemma fram í myndinni, er til að mynda afar illa við hund Billys, Barney, og hótar að fara illa með hundinn ef Billy losar sig ekki við hann. Hún, líkt og Roy áður, hlýtur makleg málagjöld þegar nokkrir gremlins breyta stillingum á stólalyftu hennar, sem verður til þess að hún skýst út um gluggann á efstu hæð húss síns, á snævi þakta stéttina fyrir neðan, og lætur lífið samstundis.
En flóknara er ímynda sér í gegnum hvaða gleraugu framleiðendur sjá þá sem losa smábæinn við hina ógeðfelldu pest, sem gremlings bersýnilega eru. Móðir Billys, Lynn Peltzer, er sú fyrsta sem berst hetjulega gegn ótemjunni og nær árangri. Hún nær að deyða þrjá gremlins, á hrottalegan hátt, með hjálp heimilistækja sem vanalega eru notuð við matreiðslu á þegar slátruðu dýrum. Ákveðin mótsögn virðist birtast hér í viðhorfi til meðferðar á dýrum, eftir því af hvaða tegund þau eru og hversu góð eða slæm þau teljast. Ef þau eru meðfærileg og góð gæludýr, líkt og hundar eða mogwai, þá er allt að því glæpur að fara illa með þau. En gerist þau hættuleg gagnvart mannfólki og öðrum dýrum, líkt og raunin er með gremlin, virðast þau réttdræp. „Peter Singer hvatti til árið 1991, að hugmyndir nytjastefnumanna (e. utilitarians) um að skilgreina þá getu dýra til þess að finna fyrir sársauka sem næga ástæðu til íhugunar á hagsmunum þeirra, væru notaðar.“[3] Samkvæmt þessu ættu gremlins, þrátt fyrir óhentugleika í umgengni, að hljóta ekki ósvipaðra réttindi og til dæmis Barney eða Gizmo.

Fræðilega séð

Löngum hefur manninn langað til þess að skoða heiminn í gegnum skynjunarveröld annarrar dýrategundar, en það getur reynst erfitt þar sem dýrin eru misjafnlega ólík okkur, og við vitum að þau skynja heiminn á mjög ólíkan hátt miðað við okkur sjálf. En með aukinni þekkingu á dýrunum og athæfum þeirra má komast nær upplifun þeirra á heiminum. Þessu ferli hefur verið líkt við tvær sápukúlur, þar sem önnur er svið manna og hin er svið tiltekinnar dýrategundar. Þessar kúlur geta skarast og myndað sameiginlegan þekkingar- og skilningsgrundvöll.

„... við byrjum á því að blása ímyndaða sápukúlu í kringum hverja veru. Þessi sápukúla er þá fulltrúi heimsmyndar verunnar, full af skynjunum sem aðeins hún þekkir. Þegar við svo sjálf stígum inn í eina af þessum sápukúlum, skiptir hið kunnuglega engi um svip. Litríkir eiginleikar þess hverfa, aðrir eiga ekki lengur saman og nýjar tengingar myndast. Nýr heimur verður til. Í gegnum kúluna sjáum við heim ánamaðksins, fiðrildisins eða hagamúsarinnar; heiminn eins og hann birtist dýrunum sjálfum, ekki eins og hann birtist okkur. Þetta má vel kalla fyrirbæra heim eða sjálfs-heim dýrsins.“[4]

Gallinn er sá að sápukúlurnar geta aldrei verið fullkomlega samsvarandi þar sem svið dýrsins er ávallt að hluta til undanskilið frá hinum sameiginlega grundvelli, sem verður til þess að, fræðilega séð, næst aldrei fullkominn skilningur. Að auki má benda á að hugmyndafræðilegt viðhorf manna gagnvart dýrum almennt, í hinum vestræna heimi a.m.k., gerir það erfiðara að nálgast dýrin á jafnréttisgrundvelli.[5] Því verður svæði dýranna ósjálfrátt einskonar „villt svæði“ og jafnframt einhvers konar jaðar, sem skilgreindur er út frá miðjunni, það er hinni mannlegu miðju. Út á þetta gengur meðal annars mannmiðjukenningin (e. anthropomorphism), og uppræting framangreinds viðhorfs.
Í bók sinni Picturing Animals talar Steve Baker um að í menningunni séu dýr ávallt einhvers konar blanda af raunverulegu dýri og menningarlegri útgáfu af því. Þ.e. við sjáum aldrei dýrið sjálft þar sem það er alltaf eftirmynd dýrs, ávallt ákvarðað út frá því sem við teljum okkur vita um dýrið. Hann segir ennfremur að erfitt sé fyrir okkur, en líklega ekki ómögulegt, að flysja menningarlegar tengingar utanaf dýrinu, þ.e. eftirmyndirnar sem stýra hugsun okkar um þau.[6] Helsti vandinn í birtingarmynd mogwai og gremlins er því sá að þetta eru skáldaðar dýrategundir. Hvorug tegundin hefur yfir að ráða ósamræmanlegu sviði sem manninum getur reynst erfitt að ganga inná, hann einfaldlega getur það ekki; og hvorugt dýrið hefur raunverulega birtingarmynd í veruleikanum. Allt svæði þeirra er ímyndað af mönnum, og svæðið, utan hins sameiginlega í sápukúlukenningu Jakobs von Uexküll, er hvergi til. Því kann það að virðast undarlegt að slíkt dæmi sé tekið fyrir í þessu verkefni, þar sem ekkert af því sem gerðist í kvikmyndinni gerðist í raunveruleikanum, og því ómögulegt að draga nokkurn til ábyrgðar. En kvikmyndin sýnir samt sem áður einkar vel viðhorf[7] gegn dýrum almennt, og með því að láta alla þessa hræðilegu atburði gerast fyrir gremlins sem aldrei hafa verið til[8], þá virðist framleiðendum frjálst að fara með dýrin eins og þeim sýnist. Ólíkt raunverulegum dýrum sem notuð eru í kvikmyndir eða önnur listform, eru gremlins og mogwai ekki myndlíking fyrir raunverulega dýrategund. Þeir eru fremur eins og „allegóría“ fyrir almennt viðhorf fólks gagnvart gæludýrum. Og þar sem dýrin eru algerlega búin til af mönnum þá virðast áhorfendur geta fríað sig ábyrgð á því að hlægja að því þegar illa er farið með gremlins í kvikmyndinni. Ennfremur við það að ummyndast í einhvers konar eðlutegund verða dýrin jafnframt enn fjarskyldari mönnum en mogwai og því virðist ekki eins rangt að örbylgja þá til dauða, þeir eru jú með grænt blóð! Það virðist því sem Gizmo og Stripe[9] séu fulltrúar tveggja ósamræmanlegra viðhorfa gagnvart dýrum sem viðgangast á sama tíma.



[1] Joe Dante, Gremlins, (Steven Spielberg, 1984)
[2] „They‘re Gremlins Kate, just like mr. Futterman said!“ (íslensk þýð. mín)
[3] „The utilitarian version of animal welfare advocated by Peter Singer (1991) designates sentience or the ability to feel pain as sufficient for having interests that must be considered.“ (Sandra Mitchell, Thinking with Animals, New perspectives on Anthropomorphism, ritstj. Lorraine Daston og Gregg Mitman, (New York: Columbia University Press, 2001), bls 101.)
[4] „... we must first blow, in fancy, a soap bubble around each creature to represent its own world, filled with the perceptions which it alone knows. When we ourselves then step into one of these soap bubbles, the familiar meadow is transformed. Many of its colorful features disappear, others no longer belong together but appear in new relationships. A new world comes into being. Through the bubble we see the world of the burrowing worm, of the butterfly, or of the field mouse; the world as it apprears to the animals themselves, not as it appears to us. This we may call phenomenal world or the self-world of the animal.“, Jakob von Uexküll, „A Stroll Through the Worlds if Animals and Men“, Instinctive behavior, (New York: International Universities Press, Inc), bls. 5.
[5] Lori Gruen, Ethics and Animals, an Introduction, (Camebridge: Camebridge University Press, 2011) bls. 22.
[6] Steve Baker, Picturing Animals, Animals, identity and representation, (USA: University of Illanois Press, 2001) bls. 6-9.
[7] að minnsta kosti þeirra sem að framleiðslu myndarinnar komu.
[8] og ennfremur er fyrirmynd þeirra einkum tengd vélbúnaði – sem virkar afar ólífrænt.
[9] Stripe er forrystusauður hinna nýútunguðu mogwai. Hann verður valdur að því að þeir borða eftir miðnætti og breytast í gremlins.

Sunday, October 14, 2012

Gegnvot

Almyrkvi hjartans


                                 þegar ljósgeislarnir belja
                                                       á rúðunni
og trjágreinarnar tvístrast
í norðurátt,
á Jónsmessu,
og ég skal hlaupa nakin út í storminn
leyfa honum að umlykja
í nótt smjúga í nótt.

Hann hótaði að rigna en ég friðmæltist við hann með því að skyrpa á götuna

                                                 Og snjókornin
                lenda svo ónáttúrulega ummerkjalaus
                                        á skraufþurri stéttinni

Þú meintir,
hins vegar
eitthvað allt annað
þegar þú
sagðist-

                                           bara ætla að bleyta
                                           bara lærin mín
                                           bara þar
                                           bara dögg
                                           bara
                                           ósýnileg mjólk

Wednesday, August 08, 2012

Á stórum flutningabíl á áttatíu km/klst hraða hangir ljóstýra í stuttri snúru, sveiflast, lokkar mig inn á milli mjúkra gúmmídekkjanna.

berleggjaðar trjáhríslur stafa út í loftið 3-4 metra fyrir ofan mig

rauður fáni gulur fáni
hanga nær litlausir í logninu

himininn er eins og óskrifað nótnablað
Hann hótaði að rigna en ég friðmæltist við hann með þvi að skyrpa á jörðina- í staðinn bleytti hann bara lærin mín og lét þar við standa.
Á milli screengluggatjaldanna tveggja er bil. Í gegnum það skín sólin á andlit mitt eldsnemma á morgnana og í gegnum þetta bil horfi ég á útskúfaðar aspirnar í næsta garði sveigjast í vindinum fyrir framan hvítgráan bakgrunn sem himinninn dregur fyrir sig að kvöldi. Og sé stjörnubjart lít ég kannski þrjár bjartar stjörnur-ef ég er heppin; borgarmengunin þú veist. Stöku andlit sem stingur höfðinu út um opinn gluggann á húsinu með garðinum og kallar á Jóa-sem mér er sagt að sé köttur, en ég hef aldrei séð hann, kannski hann komi inn um gluggann á neðri hæð hússins. Mjór, lóðréttur og langur rammi minn sýnir mér þó yfirleitt allt sem ég þarf. Fyrr eða síðar mun allt fara framhjá rammanum mínum-fyrr eða síðar mun hann sýna mér allt.
Efi sem plagar
óskilgreind sjálfsvorkunn-nístandi
krafsar laust í yfirborðið
aftur og aftur, hættir ekki
krafsar þar til yfirborðið er ekki lengur til staðar
og komið er í undirlagið
klórar-það klægjar svo
kreistir-það glansar svo
sveltir-það fitnar svo
gleymir-það minnist svo
lítur undan-það starir svo

Væri leiðin greið

Raskar ójafnvæginu, leyfir hlutunum að flæða áfran án nokkurrar óstöðugrar mótstöðu, velta-ýta undan sér beinagrindunum-sem voru geymdar og gleymdar í skápnum, þessum með ólæstu en mjög svo stífu hurðunum. Þannig að hver sem væri þar inni héldi að skápurinn væri læstur og reyndi ekki að komast út-lemdi bara í veggina í kringum sig og vissi ekki að með því að halda bara kúlinu og ýta þéttingsfast á hurðina væri leiðin greið.

pæli um texta-sjónlist

Að setja myndir í orð og að setja orð í myndir, er virkilega svo mikill munur á þessu tvennu? Hægt er að þýða myndlistarverk yfir í orð- lýsa því/útskýra það/gefa því titil...(er titill á myndlistarverki kannski ákveðin þýðing?), og er þá á sama hátt hægt að þýða texta yfir í myndlistarverk?

Thursday, February 16, 2012

The oddities of nature

Wednesday, October 12, 2011

Án titils

Gangandi um nótt í borgaralegri sveit,
fyllast lungu mín hægt
útblástursblönduðu lofti, fifty fifty
sleikjó nemur við svört og bleik munnvikin.
Rykmettun 400 µg/m³ og ég anda með annarri nösinni.
Hálfljósmengaður himininn undirstrikar Karlsvagninn
með neongrænu tússi
og manngerða fjallið í götunni minni hefur verið fjarlægt.

Með karamellur í rassvasanum

Með karamellur í rassvasanum
Bíð eftir að þær mýkist
Geng allan daginn
Með karamellur í rassvasanum.

Hún var glerhörð í morgun,
Óþroskuð, óæt
Ég fann það með puttunum
Ég setti tvær til vonar og vara
Ef ég skyldi vilja aðra seinna.

Hún var ljúffeng loksins þegar ég át hana
Mjúk, teygjanleg og
Ef ég væri með lélegar fyllingar
Þá myndi ég kyngja þeim með.
Svo át ég hina.

Thursday, June 09, 2011

Ó vissa

Hún hefur komist að niðurstöðu um hvað það er sem hún verður að gera. Þetta gengur ekki lengur eins og þetta er núna, hún er öll í glundroða, ekki nógu skipulögð og hún er fullkomlega ósamkvæm sjálfri sér. Hún verður að byrja upp á nýtt, hefur ákveðið að endurskipuleggja persónu sína, og endurskrifa sjálfa sig. Á rithöfundamáli myndi þetta kannski kallast persónusköpun, nema að í þetta sinn á hugtakið við hana sjálfa. Hún ætlar að skrifa inn nýjan hugsunarhátt í persónu sína, nýtt útlit, nýjan smekk, allt nýtt. All mun vera kyrfilega skipulagt, sett saman í kerfisbundna dálka og hópa, líkt og í forriti þar sem enginn "random" fítus er til staðar, nema hugsanlega í fyrirframákveðnum aðstæðum. Ekkert mun koma á óvart og ekekrt, nema hún sjálf, getur ráðið sínum eigin örlögum.

Wednesday, May 11, 2011

Kennileiti persónu

Þegar ég lít upp sé ég glitta í höfuð hans ofan á húsþaki. Hann hefur verið að sóla sig þarna uppi, hugsanlega að reykja- í bleikri skyrtu. Ég tók eftir því hverju hann klæddist en ekki hvernig andlit hans leit út, Ef ég hitti hann fimm mínútum seinna úti á götu myndi ég ekki þekkja hann. Ef hann hefði verið bera að ofan hefði ég líklegast tekið mest eftir skyrtuleysinu, en ef fataleysi væri alls ekkert óeðlilegt og fólk væri yfirleitt nakið úti á götu hefði ég þá betur tekið eftir andliti hans eða hefði ég frekar tekið eftir bringuhárum/bringuháraleysi hans?


Ef allir hefðu nákveæmlega sama eins líkama væri fólk þá minna feimið við að sýna þá? Fólk hefur mjög mismunandi andlit en a.m.k hérlendis er ekkert tiltökumál að sýna þau, andlit okkar og líkamar eru kennileiti sem hægt er að þekkja okkur af. Með því að bera búrkur eru konur þá að eyða kennileitum sínum?

Tuesday, May 10, 2011

Handy man hamrar

Ég horfði á þungt verkfærið í höndum mér, gat ekki komið þessu guðsvolaða lagi af heilanum mínum... "I'm a handy man...". Ekkerð slæmt lag í sjálfu sér, en flest verður leiðigjarnt eftir nokkra klukkutíma... Seinasta tímann hafði ég hamrað í takt við lagið í hausnum á mér, á mismunandi hraða, sungnu með mismunandi óþolandi röddum, oftar í þumalputtann held ég, en í höfuð naglans.
Talandi um nagla, og náunga sem kallaðir eru naglar... Er þá yfirleitt búið að hamra úr þeim allt vit? Hver er það sem gerir slíkt? Sá hlýtur þá að skarta stokkbólgnum þumalputta...

Monday, February 21, 2011

Um vinnustofuna Seyðisfjörður 2011

Nokkrir listnemar, íslenskir og erlendir, setjast að, ár hvert á Seyðisfirði, í sautján daga í þeim tilgangi að setja upp sýningu í Skaftfelli. Skaftfell er menningarmiðstöð Austurlands og staðsett á Seyðisfirði. Bærinn Seyðisfjörður er einskonar millistaður, nógu afskekktur til að hægt sé að finnast maður vera einn, en nógu tengdur til þess að maður flækist ekki í eigin þankagangi í einveru sinni. Þannig er staðurinn tilvalinn til sköpunar og íhugunar. Mörg verkin á sýningunni bera lauslega keim af náttúru staðarins og sérstöðu hans.

Axel, Bergur, Heidi, Helga, Jóhanna María, Leó og Sebastian eru þau sem nú dvelja þar.

Wednesday, February 02, 2011

Ég fékk póstkort um daginn. Það var ekki stílað á mig og heimilisfangið var ólesanlegt, það líktist ekki einu sinni addressunni minni. Póstberinn hlýtur að hafa sett bréfið í póstlúguna af einskærri tilviljun, ekki vitað hvað átti að gera við munaðarleysingjann og bréflúgan mín svosum virst jafngóð og hver önnur.
Ég opnaði bréfið nokkrum dögum seinna og í því stóð:
"Ég lifi í hliðarveröld sem staðsett er inni í bréfalúgunni þinni. Þú heitir kolröngu nafni þannig að ég vildi senda þér rétt nafn, líttu á umslagið!"

...

Í húminu fýkur silkifóðruð loðhúfa niður strætið sem tengir miðbæinn við vesturbæinn.
Í faldinum situr stakt hár fast, nýlitað svörtum pakkalit.
Það er nýbúið að rigna og bleikleitur pollur safnast yfir stífluðu holræsi.

Morguninn er hljóður enn um sinn og fyrstu vekjaraklukkurnar fara að hringja daginn inn.

Í borginni er alltaf einhver að deyja.

Samtíningur ljóða í safn

Hann flýtur þarna á vatnsyfirborðinu
í hvítu postulíninu,
liðaður og fallega hringaður
eins og vatnalilja,
hinn hvíti, hreini
tannþráður.
Þráðurinn sem hann notaði til að draga úr höfði hugmyndirnar, myndirnar
og hugsanaþræðina, til að þæfa úr þeim ull,
ullarband,
og prjóna úr þeim gull.

Gylltir eins og appersínugulir æðafuglar
taka þeir strætó
og virða fyrir sér útsýnið
í gegnum rispaðar rúður
í von um að sjá heiminn í nýju ljósi.
Á leið sinni safna þeir orðunum saman
í ljóð hinna röngu orða
yfirstrikuð orð, útþurrkuð,
ekki rétt skrifuð, ekki rétt hugsuð.
Á meðan fer fram uppskurður, bókagagnrýni
á þröskuldi andstæðra póla
þar sem skera skal úr hjartað og lungun
því það er rembihnútur á æðakerfinu
og tilfinningarnar mega ekki flæða til heilans.

Í gær meig ég í skóna.
Ég meika þetta ekki lengur.
Ég loka þær inni
til seinni afnota, misnota
ónota.

Innilokaðar,
innantómar að innanverðu
inni loka, inni í tóminu, inni verða um aldur og ævi.
Bíða eftir þér
lesa ljóð eftir þig.

Djöfull ertu frábær...
Eins og Tom Jones.

Friday, December 10, 2010

Ég sökka stundum feitt

Endilega láttu mig vita ef ég verð of sjálfhverf, mér er varla viðbjargandi. Ég er í ferli sem byggist á því að skilgreina sjálfa mig, skrifa ritgerðir um sjálfa mig, hugsa um sjálfa mig, gera umsagnir um sjálfa mig... Ég meira að segja blogga um sjálfa mig. Ekki eins og það hafi ekki verið nóg af því fyrir. Ég er meira að segja búin að vera svo upptekin í sjálfhverfunni að ég kaus ekki í stjórnlagaþingskosningunum.
En það er alltaf ég í samhengi við umhverfið, innblástur, idolin, áhrifavaldana, og það er svo erfitt að sjá hvað af þessu er það sem raunverulega hefur áhrif og hvað er það sem ég vildi að hefði áhrif. Auðvitað vill maður að áhrifavaldarnir séu ógeðslega svalir listamenn en ekki einhver róni úti í bæ... Þegar það hins vegar er róni út í bæ sem er áhrifavaldurinn þá reynir maður að dulbúa það með því að kasta fram eftirá nokkrum nöfnum svalra listamanna sem hafa unnið með rónum úti í bæ. En af því að ég er svo léleg í namedropping leiknum að þá þarf ég alltaf að leita heimilda, googla og þessháttar til að kasta nöfnunum fram. Sem gerir það að verkum að samtalið er komið á allt aðrar götur og það eina sem ég get gert er að vona að sama samtal eigi sér stað aftur, með einhverjum öðrum og ég get loksins nýtt mér nöfnin, ef ég er ekki búin að gleyma þeim... Ég sökka stundum feitt... Kannski er ég bara feit... Kannski er ég bara feik...
Með stjórnlagaþingið... Þing fólks, sem kannski getur haft áhrif á breytingar á stjórnarskránni. Kosningarnar-prufa hvernig persónukjör gæti hugsanlega virkað ef það yrði einhverntíman tekið upp...
Fólkið sem bauð sig fram: Örugglega gott fólk upp til hópa... En það sem það setur í kynninguna sína getur verið mesta bullshitt ever, hvað veist þú um það? Kannski er gellan sem þú vilt kjósa í fyrsta sæti siðlaus og segir hvað sem er til að komast í einhverja valdastöðu(sem er þó ekki mjög valdarík... Þýðir það þá að fólkið sem býður sig fram er heiðarlegt því það vill valdalausa stöðu?)
Orðin: ,,Hamingja, sameining og orka" geta staðið fyrir framan hvaða hlut sem er og þýtt mismunandi hluti, þau geta líka verið merkingarlaus, en af því þau eru sett fyrir framan eitthvað gerum við ráð fyrir að það sé sannleikur...(kemur frá Baldri bekkjó). Það að frambjóðandi noti þessi orð í kynningunni þýðir ekki að hann líti á þau á sama hátt og ég þegar ég les kynninguna hans. Hann gæti verið að meina þvíngaða hamingju(allir eiga að taka þunglyndislyf), sameningu(fasíska) og orku(íslendingar eiga allir að æfa líkama sinn og heila stíft ef til stríðs skyldi koma)...
Er ég ekki bara að afsaka mig með innantómum orðum?