Saturday, May 31, 2008

Listaháskólinn here I come.... right?

Góðar fréttir:D
Ég er mjög líklega skriðin inn í Listaháskólann. Númer eitt á biðlistanum segist hafa ákveðið að hafna skólavistinni sem sér hefur verið boðin og er ég þá líklegast næst í goggunarröðinni. Jamms, ég er bara ánægð, en ég hefði getað tekið fagnaðaróp hefði ég fengið jásvar strax, núna einhvernveginn var ég alveg búin að sætta mig við að fá neisvar og einhvernveginn... Æji.. ég er bara fúl fyir að hafa ekki getað gargað "jáááááh ég komst iiiinn" og hoppað og skoppað... Mig langar bara núna bráðum að fá bréfið sem segir mér nákvæmlega að ég sé komin inn svo það sé ekkert vafamál með það...

Wednesday, May 28, 2008

ýmislegt

Ég bíð í ofvæni eftir að Listaháskólinn hringi og bjóði mér námsstöðu. Ég er núna fyrst á biðlista yfir umsækjendur þar sem ég veit fyrir víst að hún Freyja, sem var númer eitt, er komin inn... Já ég veit það af því að mamma hringdi, hún var svo forvitin:D Plís allavega einn í viðbót að hætta við skólavist... Plííííssss
Þann fyrsta júní á ég afmæli. Þar sem dagurinn lendir á sunnudegi og allir sem ég þekki eru að vinna daginn eftir hef ég ákveðið að halda upp á fæðingu mína á laugardeginum á undan. Mmmmm mig langar í:
Geisladisk með dönsku hljómsveitinni Munich, helst einhvern sem inniheldur lagið We're the young ones
Bókina Restaurant at the end of the universe, ekki gefa mér allar framhaldsbækurnar í einni þar sem ég les uppi í rúmi á bakinu og þarf bókin því að vera handhæg:D
Einhverja skemmtilega kilju:D
Ég á allt of mikið af skartgripum... En mér finnst ekkert leiðinlegt að fá slíka...
Peningar koma sér ákaflega vel í sumar þar sem ég er að halda í tvær utanlandsferðir...

Wednesday, May 21, 2008

Computer says no

Ég var að fá bréfið frá Listaháskólanum... Þeim þykir leitt að tilkynna mér... blablabla þið vitið... :(
En góðu fréttirnar eru þær að ég er í öðru sæti á biðlista.. Hvílíkur heiður.. Hvað þýðir það? Er bara einn í hverju sæti eða eru fleiri með mér í öðru sæti? Ef einn slasast lífshættulega í bílslysi og annar fær jákvætt svar frá öðrum, meira freistandi skóla, er þá ég pottþétt inn? Hringja þeir þá í mig, eða fæ ég póst?
Fjandinn...
Vitiði hvað það er langt síðan ég var ekki í skóla?????? Fimmtán fokkíng ár... Ég veslast upp og dey...

Monday, May 19, 2008

Samskipti:D

Samskiptaleið nr 3 aftur komin í gagnið, þ.e. netið er loksins orðið virkt aftur og því get ég aftur farið að eyða tíma mínum á kvöldin og daginn í algera vitlaysu... Með hjálp netleysis hefur mér tekist að lesa megnið af bókinni The Amazing Maurice á mettíma:D
Ég mætti galvösk, og ilmandi af nýmöluðu kaffi, á árshátíð Kaffitárs á luagardaginn og skemmti mér alveg nokkuð vel... Því miður var árshátíðin haldin í Njarðvík og því þurftum við Reykjavíkurrotturnar að ferðast þangað með rútu. Í Njarðvík býr fólk sem hefur undarlegan smekk á fötum, húmor, hegðun og mörgu fleiru og sást það vel á þeim sem búa og vinna í Najrðvík á launaskrá hjá Kaffitári. Um skemmtiátriðin sáu jú Njarðvíkingar góðir og kenndi þar á ýmsum grösum. M.a. fengum við að hlusta á ljóðasöng sem þau sjálf höfðu samið, fyrirlestur um hvernig kaffibaunaræktun samsvarar sér við sögur úr ástarlífi hjóna einna á fimmtugsaldri og ákaflega sérstakan söngfugl sem söng svo eftirminnilega fyrir okkur hið fagra lag, Bláu augun þín, ég held ég geti aldrei hlustað á þetta lag án þess að minnast allra nótnanna sem hún hitti ekki á...
Ég gærkveldi fór ég á tónleika Ólafs Arnalds á Listahátíð með henni Elísabetu sem vinnur með mér. Ólafur Arnalds semur falleg og róleg lög og notaðist hann við Píanó, þrjár fiðlur (ein af fiðlulekurunum var hún Arnbjörg-dóttir Auðuns stærðfræðikennara í MR og gamall bekkjarfélagi ykkar Hörpu og Evu) eitt selló, einhver þrjú-fjögur rafmagnstæki sem gáfu frá sér rafmagnaðan takt og í síðasta laginu trommur og bassa(sem hann litli bróðir Evu spilaði á). Ég sat með Elísabetu í annarri röð og hlustaði dolfallin á strákinn sem hitaði upp fyrir Ólaf. Hann heitir Svavar, held ég, og syngur ótrúlega vel. Í öðru lagi hans mætti einn bekkjarbróðir minn úr Myndó og settist í auða sætið við hliðina á mér. Skemmtilegt frá því að segja að í miðbikið á tónleikum Ólafs dottaði hann strákur frekar oft og eyddi ég miklum kröftum í að halda honum vakandi, ánþess að láta nokkurn taka eftir því(held ég) og í hvert sinn sem höfuð hans hallaðist ógurlega til hliðar saug ég upp í nefið svo það heyrðist bara smá og þá afdottaði hann... Eftir tónleikana sagði hann um þá að þeir hefðu verið ofboðslega þægilegir, einum of kannski... :Dhaha
Hmmm, ekkert meira sem ég get sagt? Jú, Priceless, myndin með Audrey Tautou er æðisleg, horfið á hana:D Og Big Fish var fín líka:D

Wednesday, May 14, 2008

Whipped cream or chocolatesauce?

Á laugardaginn, 17. maí kl 20:00, verður árshátíð Kaffitárs haldin í Njarðvík. Rútur sækja fólkið sem býr í siðmenningunni á höfuðborgarsvæðinu kl. 19:00. Ég var svo mikill kjáni að taka að mér vinnu í Bankastræti til kl. 18:30, sem þýðir að ég verð, eftir vaktina, að taka með mér og klæða mig í fína kjólinn minn inni á hinu agnarsmáa klósetti sem Kafftár í Bankastrætinu skartar og gera mig fína þar. Kannski ég taki með mér svitalyktaeyði og eitthvað ilmsprey sem eyðir kaffilykt... Það er alveg dæmigert að mér takist að klína rjóma eða einhverjum andskotanum í hárið á mér þennan dag, sjáið til, hvað sem það er, rjómi, karamellusósa, kaffikorgur, tyggjó, hesilhnetusíróp, mér mun takast að skarta því á árshátíðinni... Bíðið bara. "hmm, hvaða lykt er þetta, nýtt ilmvatn?"... "nei, Irish Cream"...

Sunday, May 04, 2008

Ein blaðsíða í ævi konu

Karfan þarna á gólfinu er full af alls kyns minningarbrotum úr okkar fyrra sambandi. Við þekkjumst ekki lengur, helst vegna þess að okkar samskipti stöðnuðu þegar leiðir okkar lágu í sína hvora áttina. Við nenntum ekki, eða höfðum ekki lengur áhuga á að halda sambandi, ég veit ekki hvort það var, en allavega, mér er alveg sama. Ég veit ekkert hvað hefði orðið úr þessu, hvort við hefðum farið að hata hvora aðra, eða hvort við hefðum haldið áfram að vera bestu vinkonur. Satt að segja var ég orðin svolítið leið á þér, þú hafðir ekkert að bjóða og er ég viss um að þér leið eins, þú allavega lést þannig þegar ég hringdi og bauð þér í afmælið mitt síðast. Þú varst að gera eitthvað annað. Ég bauð þér reyndar bara upp á kurteisissakir en þú gast ekkert vitað það. Mér er alveg sama. Ég er að spá í að henda þessari ljótu körfu, hún er úr basti og er að hrynja í sundur, bast út um allt og svoleiðis. Veit ekkert hvað ég á að gera við minningarnar. Býst svosum við að setja þetta í poka og ofan í skúffu, mér er alveg sama. Kannski hendi ég þessu bara. Þér er alveg sama. Það er ekki eins og þú vitir að ég sé að skrifa til þín. Þú ert bara ein blaðsíða enn í dagbókinni minni, þessari nýju með fiðrildunum á. Þú áttir alveg fullt af blaðsíðum í gömlu dagbókunum mínum, eiginlega öllum hinum, það varst reyndar þú sem sagðir mér að fara að skrifa dagbók. Þú sagðir að ég væri svo gleymin og að það væri gott fyrir mig að fletta upp í bókunum seinna meir, þegar ég væri orðin eldri, og minnast gamallar tíðar. ég held samt að ég muni aldrei gleyma þér. Nema að ég fengi Alzheimers. Ég sá á mæspeisinu þínu að þú værir í háskólanum að læra verkfræði. Ég hélt alltaf að þú værir heimspekitýpan, eins og ég. Ókei, blaðsíðan er búin, þú færð ekki meira pláss. MÉR ER ALVEG SAMA.

Thursday, May 01, 2008

Pæling, af orðinu páll, sem þýðir skófla... Skóflaðu til í heilanum þínum:D

Segjum að maður tæki stelpu og byggi til karlkyns klón af henni. Svo myndi stelpan og klónið verða ástfangin og gera hluti sem ástfangið fólk gerir... Væri það sifjaspell eða sjálfsfróun???
Þessi pæling hefur ekki vikið úr huga mér síðan ég fyrst heyrði hana frá annarri stelpu sem heyrði hana frá einhverjum vini sínum. Og ég er búin að segja einhverjum af ykkur frá þessari pælingu. Já, nú er mál að koma af stað smá umræðu á athugasemdakerfinu, er það ekki?