Sunday, May 04, 2008

Ein blaðsíða í ævi konu

Karfan þarna á gólfinu er full af alls kyns minningarbrotum úr okkar fyrra sambandi. Við þekkjumst ekki lengur, helst vegna þess að okkar samskipti stöðnuðu þegar leiðir okkar lágu í sína hvora áttina. Við nenntum ekki, eða höfðum ekki lengur áhuga á að halda sambandi, ég veit ekki hvort það var, en allavega, mér er alveg sama. Ég veit ekkert hvað hefði orðið úr þessu, hvort við hefðum farið að hata hvora aðra, eða hvort við hefðum haldið áfram að vera bestu vinkonur. Satt að segja var ég orðin svolítið leið á þér, þú hafðir ekkert að bjóða og er ég viss um að þér leið eins, þú allavega lést þannig þegar ég hringdi og bauð þér í afmælið mitt síðast. Þú varst að gera eitthvað annað. Ég bauð þér reyndar bara upp á kurteisissakir en þú gast ekkert vitað það. Mér er alveg sama. Ég er að spá í að henda þessari ljótu körfu, hún er úr basti og er að hrynja í sundur, bast út um allt og svoleiðis. Veit ekkert hvað ég á að gera við minningarnar. Býst svosum við að setja þetta í poka og ofan í skúffu, mér er alveg sama. Kannski hendi ég þessu bara. Þér er alveg sama. Það er ekki eins og þú vitir að ég sé að skrifa til þín. Þú ert bara ein blaðsíða enn í dagbókinni minni, þessari nýju með fiðrildunum á. Þú áttir alveg fullt af blaðsíðum í gömlu dagbókunum mínum, eiginlega öllum hinum, það varst reyndar þú sem sagðir mér að fara að skrifa dagbók. Þú sagðir að ég væri svo gleymin og að það væri gott fyrir mig að fletta upp í bókunum seinna meir, þegar ég væri orðin eldri, og minnast gamallar tíðar. ég held samt að ég muni aldrei gleyma þér. Nema að ég fengi Alzheimers. Ég sá á mæspeisinu þínu að þú værir í háskólanum að læra verkfræði. Ég hélt alltaf að þú værir heimspekitýpan, eins og ég. Ókei, blaðsíðan er búin, þú færð ekki meira pláss. MÉR ER ALVEG SAMA.

3 Comments:

Anonymous Anonymous segir:

vó!
ég þarf að gefa mér góðan tíma í að lesa þetta..
þetta er svo djúpt!
Tekur tíma fyrir einfeldning eins og mig að lesa þetta ;) hehehehe

4:29 PM  
Anonymous Anonymous segir:

vá djúpt hehe...ertu að tala til körfunnar eða leynist eitthvað meira þarna!

7:43 PM  
Anonymous Anonymous segir:

hmm höfundur gefur ekkert uppi hahaha

3:31 PM  

Post a Comment

<< Home