Monday, February 21, 2011

Um vinnustofuna Seyðisfjörður 2011

Nokkrir listnemar, íslenskir og erlendir, setjast að, ár hvert á Seyðisfirði, í sautján daga í þeim tilgangi að setja upp sýningu í Skaftfelli. Skaftfell er menningarmiðstöð Austurlands og staðsett á Seyðisfirði. Bærinn Seyðisfjörður er einskonar millistaður, nógu afskekktur til að hægt sé að finnast maður vera einn, en nógu tengdur til þess að maður flækist ekki í eigin þankagangi í einveru sinni. Þannig er staðurinn tilvalinn til sköpunar og íhugunar. Mörg verkin á sýningunni bera lauslega keim af náttúru staðarins og sérstöðu hans.

Axel, Bergur, Heidi, Helga, Jóhanna María, Leó og Sebastian eru þau sem nú dvelja þar.

Wednesday, February 02, 2011

Ég fékk póstkort um daginn. Það var ekki stílað á mig og heimilisfangið var ólesanlegt, það líktist ekki einu sinni addressunni minni. Póstberinn hlýtur að hafa sett bréfið í póstlúguna af einskærri tilviljun, ekki vitað hvað átti að gera við munaðarleysingjann og bréflúgan mín svosum virst jafngóð og hver önnur.
Ég opnaði bréfið nokkrum dögum seinna og í því stóð:
"Ég lifi í hliðarveröld sem staðsett er inni í bréfalúgunni þinni. Þú heitir kolröngu nafni þannig að ég vildi senda þér rétt nafn, líttu á umslagið!"

...

Í húminu fýkur silkifóðruð loðhúfa niður strætið sem tengir miðbæinn við vesturbæinn.
Í faldinum situr stakt hár fast, nýlitað svörtum pakkalit.
Það er nýbúið að rigna og bleikleitur pollur safnast yfir stífluðu holræsi.

Morguninn er hljóður enn um sinn og fyrstu vekjaraklukkurnar fara að hringja daginn inn.

Í borginni er alltaf einhver að deyja.

Samtíningur ljóða í safn

Hann flýtur þarna á vatnsyfirborðinu
í hvítu postulíninu,
liðaður og fallega hringaður
eins og vatnalilja,
hinn hvíti, hreini
tannþráður.
Þráðurinn sem hann notaði til að draga úr höfði hugmyndirnar, myndirnar
og hugsanaþræðina, til að þæfa úr þeim ull,
ullarband,
og prjóna úr þeim gull.

Gylltir eins og appersínugulir æðafuglar
taka þeir strætó
og virða fyrir sér útsýnið
í gegnum rispaðar rúður
í von um að sjá heiminn í nýju ljósi.
Á leið sinni safna þeir orðunum saman
í ljóð hinna röngu orða
yfirstrikuð orð, útþurrkuð,
ekki rétt skrifuð, ekki rétt hugsuð.
Á meðan fer fram uppskurður, bókagagnrýni
á þröskuldi andstæðra póla
þar sem skera skal úr hjartað og lungun
því það er rembihnútur á æðakerfinu
og tilfinningarnar mega ekki flæða til heilans.

Í gær meig ég í skóna.
Ég meika þetta ekki lengur.
Ég loka þær inni
til seinni afnota, misnota
ónota.

Innilokaðar,
innantómar að innanverðu
inni loka, inni í tóminu, inni verða um aldur og ævi.
Bíða eftir þér
lesa ljóð eftir þig.

Djöfull ertu frábær...
Eins og Tom Jones.