Wednesday, October 12, 2011

Án titils

Gangandi um nótt í borgaralegri sveit,
fyllast lungu mín hægt
útblástursblönduðu lofti, fifty fifty
sleikjó nemur við svört og bleik munnvikin.
Rykmettun 400 µg/m³ og ég anda með annarri nösinni.
Hálfljósmengaður himininn undirstrikar Karlsvagninn
með neongrænu tússi
og manngerða fjallið í götunni minni hefur verið fjarlægt.

Með karamellur í rassvasanum

Með karamellur í rassvasanum
Bíð eftir að þær mýkist
Geng allan daginn
Með karamellur í rassvasanum.

Hún var glerhörð í morgun,
Óþroskuð, óæt
Ég fann það með puttunum
Ég setti tvær til vonar og vara
Ef ég skyldi vilja aðra seinna.

Hún var ljúffeng loksins þegar ég át hana
Mjúk, teygjanleg og
Ef ég væri með lélegar fyllingar
Þá myndi ég kyngja þeim með.
Svo át ég hina.