Dagarnir á undan þessum degi
Á sunnudaginn um eittleitið var ég niðri í forstofu að klæða mig í skóna mína, háu svörtu hlýju stígvélin mín. Ég var á leiðinni í aukakóræfingu í Grensáskirkju hvar kórinn ætlaði að taka upp fáein lög fyrir geisladisk sem við erum að útbúa. Þegar ég var hálfnuð við að toga seinna stígvélið upp vinstri fótinn kom Þurs aftan að mér og beit mig. Hvílíkur sársauki, en þar sem ég er hörð stelpa harkaði ég af mér og fór með strætó í Grensáskirkju. Við stóðum upprétt afar lengi til þess að fá sem bestan hljóm fyrir upptökutækin og milli upptaka settist ég niður eða lagðist á gólfið þar sem mér var nú enn illt í bakinu. Ég hef áður fengið svona Þursabit og yfirleitt hefur þetta lagast yfir daginn og ég er oftast góð um kvöldið. Þar sem ég var að reyna mikið á mjóbakið við að standa svona í fjóra klst þá var mér orðið frekar illt í bakinu við enda æfingarinnar. Ég treysti mér ekki til þess að fara heim í strætó svo ég sníkti far með einni í kórnum. Ég staulaðist þá, þó á mjög þokkafullan hátt, upp í risastóran Mussojeppann hennar og hún skutlaði mér heim, hún bauð mér meira að segja að koma og borða með þeim en ég afþakkaði pent, hefði líklegast endað með því að gista hjá þeim grátandi uppi í rúmi af sársauka(eða uppdópuð og ælandi). Þegar heim var komið staulaðist ég upp á efri hæðina og horfði á vídjó og borðaði kvöldmatinn, kanilsnúð og rúnstykki með skinu og osti keypt í bakaríinu hjá kirkjunni. Eftir það sótti ég mér hitapúða og lagðist upp í rúm með hitapúðann á hæstu stillingu undir bakinu. Ég stillti vekjaraklukkuna í símanum því ég hélt mér myndi batna um nóttina. en ónei, þegar ég vaknaði um morguninn kl 06:30 fann ég að ég þyrfti að vera heima því sársaukinn hafði ekkert lagast, heldur frekar versnað ef eitthvað var. Ég fór aftur að sofa, vaknaði kl átta og hringdi svo upp í skóla til að tilkynna mig veika. Svo fór ég aftur að sofa með hitapúðann góða á aðeins minni hita vegna þess að ég var farin að finna lykt af brenndu holdi... haha... Um tólfleitið var ég orðin mjög svöng og farin að vorkenna sjálfri mér mikið, ég neita ekki að fáein tár hafi fallið, með tilheyrandi grenjusvipbrigðum og maskaraklessum. Þá heftaði ég í mig kjark til þess að klaufast niður á neðri hæðina í leit að mat og verkjalyfjum. Þá hringdi síminn, þetta var hún mamma mín í Argentínu að athuga hvernig ég hefði það þarna alein heima með engann til að gantast í nema sjálfa mig. Ég grenjaði smá í símann og kvartaði undan Þursabitinu og verkjunum og hún fór að hafa áhyggjur af mér, ég skildi ekki einu sinni sjálf hvað ég var að segja því ég vældi svo mikið. Hún sagðist ætla að hringja aftur eftir klst og athuga hvernig mér liði þá. Ég fékk mér jógúrt og þrjár 400 mg íbúfen og togaði mig aftur upp á efri hæðina og lagðist í lyfjadá með símann í hönd. Svo rankaði ég aftur við mér, fór á stjá og mamma hringdi. Ég sagði að mér liði betur, í lyfjamóki haha, og að ég gæti gengið smá. Ég gat um kvöldið hitað upp afganginn af takkóinu sem ég hafði eldað á laugardeginum og horfði á slæma slæma sorpkvikmynd sem ég treysti mér ekki til þess að nefna hér á nafn, þér gætuð misst álit á mér... Svo tók ég fáeinar fleiri verkjatöflur, íbúfen og parataps, og lúllaði með hitapúðann góða. Í morgun leið mér nógu vel til þess að fara í skólann og ég held ég hafi skorað nokkur kúlstig hjá ljósmyndakennaranum með því að koma með ævaforna filmumyndavél í skólann...
6 Comments:
æææææ greyið mitt!!! :/ þetta er hræðilegt að heyra :/
En gott að þér líður betur núna :)
hmmm ætli þetta sé merki um elli? neee djók, kannski ekki komið að því ennþá hihi (því annars myndi það þýða að ég væri líka orðin gömul...)
Æ hvað ég vildi hafa verið hjá þér :O(
Knús Svansa
held að Eric þrái þig .,. og myndavélina sérstaklega eftir að þú þurftir að kútveltast á gólfinu í stúdíó tímanum
Já veltist ég ekki á þokkafullan hátt??? hehe
Hann er meira að segja búinn að segjast vilja kaupa filmustykkið sem var inni í vélinni... Hmmm, hversu mikið ætli ég geti kreist út úr honum peningalega séð?
hehehe snilldar lýsing!
Þessi "gæða-mynd" sem þú varst að horfa á var það dönsk hálfgerð gamanmynd...? Sá restina sem var bara alveg nóg...!
En skamm, skamm, er búin að skrifa 2 blogg og ekkert komment frá þér!!
Farðu vel með þig til að fá ekki fleiri þursabit ;) Beygja hnén!
Ég horfði á sorp Dvd mynd sjálfviljug, þess vegna er ég feimin við að segja hvaða mynd þetta er...
kv Jóhanna
Post a Comment
<< Home